Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bæjarstjórn Grindavíkur: Ríkisvaldið ber ábyrgðina
Mánudagur 17. september 2007 kl. 23:40

Bæjarstjórn Grindavíkur: Ríkisvaldið ber ábyrgðina

Bæjarstjórn Grindavíkur kom saman á aukafundi í kvöld til að ræða málefni mótvægisaðgerða ríkisvaldsins vegna hinna umtalsverðu aflaskerðingar á þorskaflaheimildum sem tóku gildi í haust. Eins og áður hefur komið fram urðu Grindvíkingar fyrir miklum vonbrigðum með að ekkert virðist vera í þeim áætlunum sem gagnist þessari stærstu þorskaflahöfn landsins og gekk bæjarráð til fundar við fjármálaráðherra í dag til að ráð þessi mál.


Á aukabæjarstjórnarfundinum í kvöld var samþykkt harðorð ályktun sem átelur ríkisvaldið fyrir að sniðganga Grindavík og lýsir fullri ábyrgð á því ástandi sem skapast mun í vor, þegar aflaheimildir þver, á hendur ríkisvaldinu.


Ályktunin fylgir hér á eftir:


Ályktun á aukabæjarstjórnarfundi mánudaginn 17. september 2007
Bæjarstjórn Grindavíkur lýsir yfir undrun og óánægju með svokallaðar mótvægisaðgerðir ríkistjórnarinnar vegna aflaskerðingar á þorski. Grindavík missir mest allra sveitarfélaga á landinu af þorski eða tæp 6.000 tonn á þessu fiskveiðiári en er ekki á nokkurn hátt með í mótvægisaðgerðum sem ríkistjórnin hefur boðað. Það vekur furðu að ríkisvaldið skuli ekki  koma til móts við íbúa í Grindavík, fyrirtæki og einstaklinga sem munu verða fyrir tekjumissi og missa vinnu næsta vor. Margir einyrkjar munu ekki geta haldið áfram rekstri við núverandi aðstæður. Ekkert tillit er tekið til tekjusamdráttar sjómanna né landverkafólks.


Bæjarstjórn telur þær aðgerðir sem nú hafa verið kynntar ekki mótvægisaðgerðir vegna skerðingar á aflamarki í þorski, heldur virðast byggðasjónarmið ráða.  Aðgerðum og styrkjum er að miklum hluta beint til einstakra byggðarlaga, sem kemur þeim örugglega vel. Jafnræðis er ekki gætt til að mæta skerðingunni hjá öllum byggðarlögum sem verða  fyrir henni.


Það lítur helst út fyrir að verið sé að refsa Grindvíkingum fyrir að hafa sýnt aðhald og ábyrgð í rekstri undanfarin ár. 


Ríkisvaldið getur ekki firrt sig ábyrgð gagnvart sjávarútvegi í Grindavík og velt fjárhagstjóni  sem fyrirtæki, einstaklingar og bæjarsjóður verða fyrir vegna skerðingar á þorskveiði alfarið yfir á þá aðila.


Það er ekki hægt að una því að fyrirtækjum og einstaklingum sé mismunað á þann hátt sem gert er af ríkisvaldinu nú  með svokölluðum mótvægisaðgerðum auk  byggðakvóta, slægingarstuðla  o.fl. milli landshluta.


Bæjarstjórn Grindavíkur harmar að ekki skuli hafa verið haft samráð, í aðdraganda  svokallaðra mótvægisaðgerða, við það sveitarfélag sem einna harðast verður úti í niðurskurði aflaheimilda í þorski.


Bæjarstjórn Grindavíkur lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisvaldinu á þeim áföllum sem skella mun á íbúum bæjarins næsta vor þegar skip, bátar og vinnslustöðvar  stöðvast vegna skerðingarinnar.

Bæjarstjórn Grindavíkur



Loftmynd/Þorsteinn Gunnar Kristjánsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024