Bæjarstjórn Grindavíkur harmar léleg vinnubrögð Alþingis
Bæjarstjórn Grindavíkur harmar að á Alþingi séu viðhöfð jafn léleg vinnubrögð og hið svokallaða minna kvótafrumvarp ber með sér. Bæjarstjórn skorar á Alþingi að keyra ekki svo viðkvæmt og umdeilt mál í gegnum þingið á síðustu klukkustundunum í ágreiningi, heldur gefa sér meiri tíma til að ná almennri sátt um málið.
Flutningur veiðiheimilda í byggðakvóta og strandveiði frá Grindavík mun hafa mjög neikvæð áhrif á atvinnustig í bæjarfélaginu. Fleiri tugir starfa munu glatast verði breytingarnar að veruleika. Atvinnuástand á Suðurnesjum er vel þekkt og má samfélagið ekki við því að höggin verði skörð í þá atvinnuvegi sem þó standa styrkum stoðum á svæðinu og skapa hundruði starfa.
Bæjarstjórn Grindavíkur skorar á Alþingi Íslendinga að vega ekki að hagsmunum sjávarbyggða með þessum hætti, heldur hafa það að markmiði við endurskoðun þeirra reglna sem gilda í sjávarútvegi að þær styrki sjávarútveginn í heild sinni.
Ályktun bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar um hið svokallaða ,,minna kvótafrumvarp".
,,Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar telur markmið frumvarpsins annarsvegar vera að auka skattlagningu á sjávarbyggðir og hinsvegar að taka veiðiheimildir af þeim sem hafa atvinnu af sjómennsku og flytja til þeirra sem stunda sjómennsku í frítíma sínum eða til að auka veiðiheimildir smábáta, eins og segir í umsögn Sjómannasambandsins um frumvarpið. Samkvæmt fréttum er stór hluti þeirra sem stunda strandveiðar aðilar sem hafa áður selt sínar veiðiheimildir. Markmiðið virðist vera að koma þeim aðilum aftur af stað í sjávarútvegi með því að afhenda þeim nýjar veiðiheimildir. Í frumvarpinu eru skapaðir hvatar til fjölgunar skipa og fiskvinnsla í landinu og aukinna þorskveiða með strandveiði strax á þessu kvótaári. Sú aukning er umfram ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar og í andstöðu við yfirlýsingu sjávarútvegsráðherra til alþjóða hafrannsóknarráðsins um að í einu og öllu verði farið eftir vísindalegum ráðleggingum varðandi þorskveiðar. Sjávarútvegsfyrirtækin byggja sínar vottanir á þeirri yfirlýsingu, vottanir sem hafa skapað þeim sterkari markaðsstöðu og hærra verð. Vanhugsuð aðgerð sem þessi gæti leitt til þess að erlendir kaupendur efist um að íslendingar stundi sjálfbærar og ábyrgar veiðar, með tilheyrandi áhrifum á markaðsstöðu íslenskra sjávarafurða og þar með verð.
Verðfall á mörkuðum og flutningur veiðiheimilda í byggðakvóta og strandveiði mun hafa mjög neikvæð áhrif á atvinnustig í Grindavík. Hætt er við því að útgerðir muni leggja bátum og minnka vinnslu með tilheyrandi áhrifum á tekjuskattsstofna ríkis og sveitarfélaga annarsvegar og útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs hinsvegar. Fleiri tugir starfa munu glatast verði breytingarnar að veruleika. Atvinnuástand á Suðurnesjum er vel þekkt og má samfélagið ekki við því að höggin verði skörð í þá atvinnuvegi sem þó standa styrkum stoðum á svæðinu og skapa hundruði starfa.
Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar skorar á Alþingi Íslendinga að vega ekki að hagsmunum sjávarbyggða með þessum hætti, heldur hafa það að markmiði við endurskoðun þeirra reglna sem gilda í sjávarútvegi að þær styrki greinina í heild sinni og skapi hvata til þess að hámarka verðmæti, draga úr framleiðslukostnaði og auka þar með arðsemi og tekjur þjóðarbússins. Þannig skapast svigrúm fyrir greinina til að greiða góð laun til starfsmanna allt árið, greiða hærri gjöld til hins opinbera og sinna rannsóknum og þróun til að auka enn frekar verðmæti íslenskra sjávarafurða. Bæjarstjórn skorar á Alþingi að keyra ekki jafn viðkvæmt, illa unnið og umdeilt mál í gegnum þingið á síðustu klukkustundunum í ágreiningi, heldur gefa sér meiri tíma til að ná almennri sátt um málið.
Ályktunin er samþykkt samhljóða."