Bæjarstjóri þakkar fyrir öflugt sjálfboðaliðastarf
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, bauð sjálfboðaliðum og stjórnarfólki innan unglingaráða Keflavíkur og Njarðvíkur, í knattspyrnu og körfuknattleik og sundráði ÍRB til móttöku fyrir stuttu. Þar vildi bæjarstjóri þakka stjórnarfólki og sjálfboðaliðum fyrir gríðarlega öflugt starf innan íþróttahreyfingarinnar.
Unglingaráð Keflavíkur og Njarðvíkur í körfuknattleik hafa staðið fyrir Nettómótinu í 21 ár og á 10 ára tímabili hefur fjöldi félaga aukist úr 10 í 24 og fjöldi þátttakenda úr 436 í 1191. Þá eru ótaldir gestir sem fylgja iðkendum.
Unglingaráð félaganna í knattspyrnu héldu einnig sitt Nettómót og þar voru iðkendur yfir 500 og um 1600 hundruð á Njarðvíkurmóti í 3.-7. flokki. Sundráð ÍRB hélt Bikarkeppni Íslands í 1. og 2. deild um nýliðna helgi þar sem iðkendur og gestir voru á fjórða hundraðið.
Í máli bæjarstjóra kom fram að mikla athygli bæði hér innanbæjar, en ekki síður víða um land er hin góða samvinna sem er á milli félaganna Keflavík og Njarðvík. „Þessi félög er þekkt fyrir baráttu sín á milli, sérstaklega í körfuknattleik en þegar mest liggur við og hagur barna okkar er í forgrunni þá hafa félagsmenn þann þroska að standa saman og vinna sameiginlega að þessum stóru verkefnum. Fyrir þetta er bæjarstjórn Reykjanesbæjar þakklát,“ sagði Árni.
Bæjarstjóri minntist einnig á þá fjölmörgu starfsmenn íþróttamannvirkjanna og vildi hann þakka þeim vel unnin störf, en mikið hefur mætt á þeim við framkvæmd þessara stórmóta.
www.rnb.is