Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bæjarstjóri Grindavíkur lætur af störfum
Þriðjudagur 8. nóvember 2016 kl. 22:06

Bæjarstjóri Grindavíkur lætur af störfum

- Áætlaður kostnaður við starfslokin 6 milljónir

Bæjarstjórn Grindavíkur samþykkti nú í kvöld starfslokasamning við Róbert Ragnarsson sem gegnt hefur starfi bæjarstjóra Grindavíkur undanfarin sex ár. Samningurinn var samþykktur með fjórum atkvæðum meirihluta G og D lista en fulltrúar minnihluta B og S lista sátu hjá við afgreiðsluna. Frá þessu er greint á vef Grindavíkurbæjar. Gert er ráð fyrir að kostnaður við uppsögnina verði um sex milljónir.

Róbert mun sinna starfi bæjarstjóra til 31. janúar næstkomandi og verður auglýst eftir bæjarstjóra á næstunni. Fulltrúar S og B lista, sem eru í minnihluta, harma vinnubrögðin við uppsögnina og í yfirlýsingu frá fulltrúum listanna segir að málið hafi verið unnið og samningar undirritaðir, bæði við lögfræðing og bæjarstjóra, án umræðu í bæjarstjórn eða bæjarráði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Róbert flutti í haust frá Grindavík til höfuðborgarsvæðisins, þar sem fjölskylda hans býr, og olli sú ákvörðun nokkrum titringi og kom uppsögnin í kjölfar hennar. 

Bæði meirihluti og minnihluti bæjarstjórnar sendu í kjölfar fundarins í kvöld frá sér yfirlýsingar. Þær má lesa hér fyrir neðan:

Yfirlýsing meirihluta D- og G-lista

Meirihluti bæjarstjórnar Grindavíkur og Róbert Ragnarssonar hafa komist að samkomulagi um starfslok Róberts hjá sveitarfélaginu. Róbert mun sinna störfum sem bæjarstjóri til 31. janúar 2017.

Starf bæjarstjóra verður auglýst innan skamms en samkvæmt samkomulagi um starfslok Róberts sem bæjarstjóra mun hann verða nýjum bæjarstjóra innan handar fyrst um sinn og tryggja þannig að starfslok hans valdi sem minnstri truflun á rekstri bæjarfélagsins.

Róbert hefur gengt starfi bæjarstjóra frá ágúst 2010 og vill meirihluta bæjarstjórnar Grindavíkur þakka Róberti af heilum hug fyrir afar vel unnin störf og gott samstarf.

Áætlaður kostnaður við starfslok Róberts eru 6.000.000 kr sem reiknast á þrjá mánuði með launum og launatengdum gjöldum. Í núverandi ráðningarsamningi er kveðið á um þriggja mánaða biðlaunarétt við lok kjörtímabilsins. Sá kostnaður hefði alltaf komið til við lok ráðningarsamnings Róberts og er hann því ekki reiknaður með við þessi starfslok. Lögmannskostnaður í málinu er tæpar 830.000 kr.

Yfirlýsing minnihluta B- og S lista

Bæjarfulltrúar B- og S- lista harma mjög þau vinnubrögð meirihluta D - og G - lista sem átt hafa sér stað við vinnslu starfslokasamnings Róberts Ragnarssonar bæjarstjóra. Málið var unnið og samningar undirritaðir, bæði við lögfræðing og bæjarstjóra, án þess að nokkur umræða hafi átt sér stað í bæjarstjórn eða bæjarráði.

Róbert var ráðinn við upphaf síðasta kjörtímabils. Þá strax lagðist þáverandi bæjarstjórn í mikla vinnu við endurskipulagningu á stjórnskipulagi og rekstri bæjarins. Gríðarlegur árangur hefur náðst á grunni þeirrar vinnu. Í dag er Grindavíkurbær eitt best rekna sveitarfélag landsins og í öðru sæti á lista Vísbendingar um fyrirmyndar sveitarfélagið. Þessi árangur hefði ekki náðst nema með góðri samvinnu bæjarfulltrúa og starfsfólks Grindavíkur. Róbert gegndi mikilvægu hlutverki í þeirri vinnu og er því leitt að sjá hann hverfa frá störfum á þessum tímapunkti. Fulltrúar B- og S- lista þakka Róberti innilega fyrir samstarf síðustu ára og óska honum velfarnaðar í framtíðinni.

Tengdar fréttir

Titringur í Grindavík vegna brottflutnings bæjarstjóra

Ræða starfslokasamning bæjarstjóra á lokuðum fundi