Bæjarstjórar á Suðurnesjum: Sterkir innviðir og framkvæmdir í gangi
Sveitarfélögin eru flest með einhverjar framkvæmdir í gangi auk sameiginlegra verkefna eins og uppbyggingu atvinnutækifæra við alþjóðaflugvöllinn en samningur þess efnis var undirritaður nýlega við forsætisráðherra og ráðherra samgöngumála. Þrjú stór verkefni eru í farvatninu, þ.e. álver, kísilmálmverksmiðja og gagnaver, þannig að þrátt fyrir erfitt árferði og hrun efnahagslífsins er ýmislegt í gangi. Í nýlegri útlistun frá Reykjanesbæ vegna þessara verkefna var þess getið þessi þrjú verkefni myndu á næstu árum skapa yfir 1100 störf á byggingartíma og í framhaldinu 500 störf í verunum sjálfum með um 1200 störfum til viðbótar vegna hliðaráhrifa.
Nú í vikunni voru opnuð tilboð í stækkun Gerðaskóla en um er að ræða 2460 fermetra viðbyggingu. Ellefu aðilar gerðu tilboð í verkið. Oddný Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði segir þetta stærsta verkefnið innan vébanda sveitarfélagsins. „Auk þess verða smærri viðhaldsverkefni, gatnagerð og gangstígagerð og auðvitað atvinna fyrir ungmenni í vinnuskólanum næsta sumar eins og áður. Framkvæmdir við álverið eru í fullum gangi og uppsteypa á undirstöðum kerskála er hafin. Störfum mun fjölga þar ört eftir því sem líður á framkvæmdina,“ segir Oddný.
Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Sandgerði, segir ákvörðun um sérstök verkefni, til að bregast við hugsanlegum atvinnubresti, ekki hafa verið tekna. „Hins vegar er ljóst að mörg verkefni eru í vinnslu og í undirbúningi á vegum bæjarfélagsins. Nú og fram að áramótum eru helstu verkefni bæjarfélagsins stækkun grunnskóla, lagfæringar í gatnagerð á hafnarsvæðinu, bygging á lausri leikskólastofu, bygging á þjónustuhúsi fyrir tjaldsvæði og byggingu á þjónustuhúsi fyrir vísindasamfélagið að Garðvegi 3.
Það er hinsvegar skoðun mín að Sandgerðisbær hafi trausta innviði og hafi á að skipa góðu starfsfólki sem mun nú sem endranær leggja sig fram í þjónustu við bæjarbúa. Bæjarfélagið mun komast í gegnum þetta öldurót með það að leiðarljósi að tryggja sem best velferð og þjónustu við íbúa Sandgerðisbæjar,“ segir Sigurður
Að sögn Jónu Kristínar Þorvaldsdóttur, bæjarstjóra í Grindavík er bæjarfélagið í ýmsum stærri framkvæmdum sem haldið verður áfram. Má þar nefna nýtt tjaldsvæði, sem stendur til að klára næsta vor. Þá standa yfir framkvæmdir við fjölnota íþróttahús en það verk er langt komið. Í sumar var tekin skóflustunga að nýjum grunnskóla, Menntaskóli Grindavíkur og Fisktækniskóli Íslands eru í farvatninu og þá er fyrirhuguð bygging mennta- og menningarhúss, þar sem einnig er gert ráð fyrir tónlistarskóla og bókasafni.
„Við sjávarsíðuna höfum við öflug atvinnufyrirtæki sem fyrr og ef við horfum til hinnar auðlindarinnar, jarðvarmans, þá er að vænta frekari uppbyggingar hjá ORF líftækni, sem er mjög spennandi fyrirtæki. Grindvísk þjónustufyrirtæki hafa verið að sameina krafta sína og efla samstarf um ferðatengdaþjónustu undir nafninu Grindavík-Experience.
Það er samt að mörgu alvarlegu að hyggja núna og víða áhyggjuefni vegna efnahagsins en miklu skiptir að snúa vörn í sókn með samstilltu átaki og horfa fram til þess að þetta öldurót gengur yfir,“ segir Jóna Kristín.
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum, segir bæjaryfirvöld þar ekki hafa tekið neinar sérstakar ákvarðanir til að bregðast við hugsanlegum atvinnubresti.
„Hinsvegar er ljóst að mörg verkefni eru í undirbúningi í Sveitarfélaginu Vogum og annars staðar á Suðurnesjum sem munu skapa atvinnu. Staða Sveitarfélagsins Voga er sterk og íbúar munu áfram njóta góðrar þjónustu. Innviðir alls samfélagsins á Suðurnesjum eru einnig sterkir og Suðurnesjamenn munu komast í gegnum þetta öldurót eins og þeir hafa alltaf gert,“ sagði Róbert.
Mynd / Oddgeir Karlsson. Nýlega var gerður samningar milli Ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu atvinnutækifæra við alþjóðaflugvöllinn. Álver, gagnaver og kísilmálmverksmiðja eru auk þess í farvatninu.