Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bæjarstjóra ofbýður mikill fjöldi númerslausa bíla í bænum
Hér má sjá þrjá númerslausa bíla í Vogunum.
Föstudagur 31. maí 2019 kl. 10:33

Bæjarstjóra ofbýður mikill fjöldi númerslausa bíla í bænum

Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum er afar óhress með fjölda númerslausra bíla í bæjarfélaginu. Hann fór í bíltúr um allar götur bæjarins og taldi 76 númerslausa bíla á götunum, á lóðum eða í innkeyrslum. Hann hvetur alla bæjarbúa til að taka sig á sem eiga þessa bíla sem séu ekki nein prýði og fjarlægja þá eða koma þeim í endurvinnslu. Ella verði hætta á því að Heilbrigðiseftirlitið fjarlægi þá á kostnað eiganda.

„Það er þetta með bílhræin í bænum okkar. Heilbrigðiseftirlitið réðist í heilmikið átak síðasta sumar, sem skilaði ágætis árangri. Það er hins vegar eins og ný bílhræ spretti jafnharðan upp að nýju. Pistlahöfundur tók sig til og ók um allar íbúagötur bæjarins, og taldi fjölda númerslausra bíla í öllum götum. Flestir þessara bíla voru í innkeyrslum, sumir úti á götu og enn aðrir inni á lóðum. Ég er viss um að margir eigi erfitt með að trúa tölunni, en ég taldi 76 númerslausa bíla. Sjötíuogsex! Í einni götu eru 14 númerslausir bílar. Þetta er hreint með ólíkindum.

Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja alla íbúa sveitarfélagsins til að huga nú að því hvers konar umgengni þeir bjóða sjálfum sér og nágrönnum sínum upp á. Við getum gert betur en þetta. Flestir þessara númerslausu bíla eru verðlausir, þeir eiga án efa heima í endurvinnslunni. Það er hægt að láta fjarlægja þessa bíla og koma þeim í endurvinnslu hjá þar til bærum aðilum, og fæst þá skilagjald greitt. Ég vona að íbúar sjái að sér og sameinist um að taka nú til hendinni, nýta tækifærið og láta fjarlægja illa útlítandi bílhræ af lóðum sínum. Sú leið sem sveitarfélagið hefur til að takast á við vanda sem þennan er að leita til Heilbrigðiseftirlitsins og láta fjarlægja þessi bílhræ á kostnað eigenda. Vonandi þarf ekki til þess að koma,“ segir bæjarstjórinn í Vogum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024