Bæjarskrifstofur Garðs fá inni í nýju verslunar- og þjónustuhúsnæði
Bæjaryfirvöld í Garði hafa ákveðið að ganga til samninga við Samkaup um að fá húsnæði fyrir bæjarskrifstofur í væntanlegu 1000m² verslunar- og þjónustuhúsi sem á að rísa á lóðinni þar sem hús Sparisjóðsins stendur í dag.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Sigurður Jónsson, bæjarstjóri, að öll undirbúningsvinna væri komin á fullt. „Núverandi húsnæði bæjarskrifstofanna er orðið í það þrengsta og mundi kalla á verulegar endurbætur og viðhald. Aðgengi fatlaðra þarf til að mynda að bæta.“
Skrifstofurnar eru nú 128 m² en munu vera í 300m² samkvæmt hugmyndum. Ráðgert er að hefja framkvæmdir sem allra fyrst.
Mynd: Núverandi húsnæði er orðið ófullnægjandi.