Bæjarritari kveður eftir 30 ára starf
Yfir 750 bæjarstjórnarfundir og á annað þúsund bæjarráðsfundir að baki.
Hjörtur Zakaríasson, bæjarritari Reykjanesbæjar, sat sinn síðasta bæjarstjórnarfund í gær, þriðjudaginn 7. apríl, en hann lætur af störfum vegna aldurs nú í lok mánaðarins eftir 30 ára starf.
Á fundinum var einnig mættur Ásbjörn Jónsson, lögmaður og sviðsstjóri nýs stjórnsýslusviðs hjá Reykjanesbæ, en hann mun taka við verkefnum bæjarritara sem m.a. fela í sér ritun funda bæjarstjórnar og bæjarráðs Reykjanesbæjar.
Í lok fundarins í gær fluttu forseti bæjarstjórnar, Anna Lóa Ólafsdóttir og Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi, ávörp og þökkuðu Hirti farsælt og gott starf í þágu bæjaryfirvalda og íbúa, fyrst Keflavíkur og síðar Reykjanesbæjar. Þar kom m.a. fram að Hjörtur hefur á þessum tíma öðlast gríðarlega reynslu og þekkingu á stjórnsýslu sveitarfélaga. Á þessum 30 árum hefur hann unnið með 6 bæjarstjórum;
Vilhjálmi Ketilssyni, Guðfinni Sigurvinssyni, Ellerti Eiríkssyni, Drífu Sigfúsdóttur, Árna Sigfússyni og Kjartani Má Kjartanssyni, setið meira en 750 bæjarstjórnarfundi og á annað þúsund bæjarráðsfundi.
Hjörtur þakkaði fyrir sig, sagði tímann í starfi bæjarritara hafa verið skemmtilegan en krefjandi og óskaði Ásbirni, bæjastjórn, starfsmönnum og íbúum Reykjanesbæjar allra heilla um ókomin ár.