Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bæjarráð Sandgerðis vegna Fáfnis: Fasteignaeigendur hugleiði varnaðarorð lögreglu
Fimmtudagur 24. janúar 2008 kl. 15:29

Bæjarráð Sandgerðis vegna Fáfnis: Fasteignaeigendur hugleiði varnaðarorð lögreglu

Íbúar í Sandgerði eru uggandi vegna þess orðróms að mótorhjólaklúbburinn Fáfnir hyggist koma sér fyrir í bæjarfélaginu og hafa bæjaryfirvöld fengið margar fyrirspurnir frá íbúum vegna þessa. Bæjarráð tók málið til umfjöllunar á fundi sínum á þriðjudaginn og beinir þeim tilmælum til þeirra, sem hyggjast leiga eða selja frá sér fasteignir í bæjarfélaginu, að þeir hugleiði varnaðarorð fulltrúa löggæslunnar á Suðurnesjum, sem varað hafi við komu Fáfnismanna til Suðurnesja.

Haft var eftir lögreglustjóra á dögunum að ekkert hefði fengið staðfest um fyrirætlanir klúbbsins eða ljóst væri að meðlimir hans væru engir auðfúsugestir. Tók hann jafnframt fram að lögregla myndi fylgjast vel með þróun mála.

„Bæjarráð telur eðlilegt að benda bæjarbúum á framkomin varnaðarorð og hvetur íbúa til að gæta vel að sínu nær umhverfi  og samfélagslegri uppbyggingu bæjarfélagsins. Rétt er einnig að minna á ummæli Jóhanns Benediktssonar lögreglustjóra frá því í haust þegar hann varar við ósk mótorhjólaklúbbsins Fáfnis um að tengjast sambærilegum félagsskap erlendis og bjóða þá velkomna til landsins. Sá félagsskapur er að mati lögreglustjóra talin tengjast starfsemi sem er óæskileg hér á landi.
 
Bæjarráð telur rétt og eðlilegt að vara við hverskonar starfsemi sem getur haft neikvæð áhrif á þá byggðaþróun og uppbygginu sem er í samfélaginu en Sandgerðisbær leggur áherslu á góða samfélagslega þjónustu við bæjarbúa  sem og heilbrigt umhverfi fyrir börn og unglinga,“ segir í fundargerð bæjarráðs.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024