Bæjarráð Reykjanesbæjar ósátt við skýrslu Rögnunefndar
Bæjarráð Reykjanesbæjar gerði á fundi sínum í morgun, athugasemdir við þá aðferð sem beitt var þegar skoðaðir voru kostir fyrir staðsetningu innanlandsflugs og koma fram í skýrslu svokallaðrar Rögnunefndar. Bókun bæjarráð frá því í morgun er svohljóðandi:
„Telja verður furðulegt að ekki voru skoðaðir þeir kostir sem augljósastir eru fyrir innanlandsflug þ.e. Reykjavíkurflugvöllur og Keflavíkurflugvöllur. Að komast að þeirri niðurstöðu að rétt sé að staðsetja nýjan flugvöll í aðeins 15 mínútna akstursfjarlægð frá Keflavíkurflugvelli með tilheyrandi kostnaði, er auðvitað óskiljanlegt, þegar nánast allir innviðir fyrir innanlandsflugið eru tilbúnir í Keflavík. Bæjarráð áréttar fyrri skoðun sína að ef og þegar ákveðið verður að flytja innanlandsflugið frá Reykjavík er Keflavíkurflugvöllur skynsamlegasti kosturinn,“ segir í bókun bæjarráðs.