Bæjarráð hafnaði tilllögu um áheyrnarfulltrúa
Oddviti Framsóknar segir nýjan meirihluta svíkja loforð.
Bæjarráð Reykjanesbæjar hafnaði á fundi sínum í gær, tillögu Kristins Jakobssonar oddvita Framsóknar um launaða áheyrnarfulltrúa Framsóknarflokksins í nefndum. Ráðið hafnaði tillögunni með þeim rökum að þar sem fullnaðarafgreiðsla mála fari fram í bæjarstjórn Reykjanesbæjar en ekki í nefndum er ekki talið rétt að fjölga fulltrúum með tilheyrandi kostnaði.
Bæjarráð felldi svo tillögu Sjálfstæðismanna að Framsókn fengi að hafa áheyrnarfulltrúa í nefndum án þess að sérstök greiðsla kæmi til.
Bæjarráð samþykkti hins vegar að greiða fulltrúa Framsóknarflokksins fyrir hvern setinn fund í bæjarráði. Kristinn Jakobsson oddviti Framsóknar sakaði nýjan meirihluta um að ganga á bak orða sinna um aukningu íbúalýðræðis.
„Í stefnuskrám allra framboða við síðustu kosningar kom fram áherslur á aukið lýðræði og gagnsæi. Undirritaður telur að það yrði í fullu samræmi við þær áherslur að veita Framsókn rétt á áheyrnarfulltrúa í sex fastanefndum sveitarfélagsins. Nú kýs nýr meirihluti að ganga á bak kosningaloforða framboðanna sem hann mynda, um aukið íbúalýðræði, opnari og gagnsærri stjórnsýslu og aukin áhrif íbúa á nærumhverfi sitt. Þrátt fyrir heimildir í sveitarstjórnarlögum og samþykktum Reykjanesbæjar hafnar meirihluti nýs bæjarráðs áheyrnarfulltrúum í nefndir Reykjanesbæjar. Fordæmi eru fyrir áheyrnarfulltrúum í öllum stærri sveitarfélögum og því óskiljanlegt að nýr meirihluti skýlir sig á bak við rök sem ganga þvert á stefnuskrá þeirra,“ sagði Kristinn í bókun sinni á fundinum.