Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Bæjarráð Grindavíkur mótmælir nýju kvótafrumvarpi
Fimmtudagur 19. apríl 2012 kl. 01:50

Bæjarráð Grindavíkur mótmælir nýju kvótafrumvarpi

„Bæjarráð leggur til að frumvarpið verði dregið til baka og nefndin hefji að nýju vinnu við fiskveiðistjórnunarkerfið á niðurstöðu Sáttanefndar í sjávarútvegsmálum sem skilaði af sér haustið 2010. Í þeim tillögum náðist fram sátt milli allra helstu hagsmunaaðila, en andstaða tveggja aðila varð til þess að þeirri miklu vinnu var hent út af borðinu," segir m.a. í ályktun bæjarráðs Grindavíkurbæjar sem samþykkt var á bæjarráðsfundi í dag.

Fyrir fundinum lá beiði um umsögn frá Atvinnuveganefnd Alþingis um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (heildarlög), 657. mál.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tillaga að umsögn um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða og frumvarp til laga um veiðigjald lagt fram.

Bæjarráð samþykkir umsögnina og felur bæjarstjóra að senda til atvinnuvegar Alþingis. Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Úrdráttur vegna frumvarps til laga um stjórn fiskveiða og frumvarps til laga um veiðigjald:

„Bæjarráð og bæjarstjórn Grindavíkurbæjar hafa undanfarin misseri samþykkt bókanir og umsagnir um fiskveiðistjórnunarmál þar sem lögð hefur verðið áhersla á að leitað verði leiða til að ná sátt um íslenskan sjávarútveg með reglum sem hafi það að markmiði að þær styrki greinina í heild sinni og skapi hvata til þess að hámarka verðmæti, draga úr framleiðslukostnaði og auka þar með arðsemi og tekjur þjóðarbúsins.

Sjávarútvegsfyrirtækin í Grindavík skapa um 1.000 bein störf við veiðar og vinnslu á Íslandi, sem eru álíka mörg störf og eru í áliðnaði á Íslandi. Varlega áætlað hleypur fjöldi afleiddra starfa sem sjávarútvegur í Grindavík skapar á fleiri hundruðum. Þessi störf eru mönnuð starfsmönnum sem búa um allt land. Áhrif sjávarútvegs í Grindavík ná því víða.

Helstu áhrif frumvarpanna tveggja á Grindavík verða að:
• Aflaheimildir dragast saman um á annað þúsund þorskígildistonn sem leiða til samdráttar í útsvarstekjum Grindavíkurbæjar upp á um 30 milljónir kr á ári.
•Það mun kosta útgerðir yfir 300 m.kr. að leigja til sín heimildir af kvótaþingi til að verða jafnsettar og áður.
• Hlutur sveitarfélagsins af leigukvóta í gegnum kvótaþing verður takmarkaður og mun að líkindum ekki vega upp tekjutap vegna skerðinganna. Ekki liggur fyrir hvernig tekjunum verður skipt milli sveitarfélaga.
• Grunnveiðigjald og sérstakt veiðigjald í Grindavík á síðasta ári hefði numið yfir 2.000 m.kr.
• Búast má við að stóraukin gjaldheimta af sjávarútvegsfélögunum leiði til þess að fyrirtækin reyni að draga úr kostnaði annars staðar, m.a. með því að endursemja við sjómenn og annað starfsfólk, fækka stöðugildum og draga úr þjónustukaupum. Lækkun á launakostnaði fyrirtækjanna og minnkandi þjónustukaupum mun skila sér í ennfrekari lækkun útsvarsstofns Grindavíkurbæjar og samdrætti í tekjum hafnarinnar.

Verði frumvörpin að lögum er ljóst að áhrifin verða verulega neikvæð á samfélagið í Grindavík og á Suðurnesjum öllum og mun að öllu óbreyttu valda enn meira atvinnuleysi og því að íbúum á svæðinu kann að fækka. Það er ekki á samfélagið á Suðurnesjum leggjandi. Áhrifin munu jafnframt koma fram á öðrum svæðum, en fyrirtækin í Grindavík sækja starfsfólk, og þá ekki síst sjómenn, um land allt.

Bæjarráð leggur til að frumvarpið verði dregið til baka og nefndin hefji að nýju vinnu við fiskveiðistjórnunarkerfið á niðurstöðu Sáttanefndar í sjávarútvegsmálum sem skilaði af sér haustið 2010. Í þeim tillögum náðist fram sátt milli allra helstu hagsmunaaðila, en andstaða tveggja aðila varð til þess að þeirri miklu vinnu var hent út af borðinu.“