Bæjarráð Grindavíkur mótmælir lokun á sýsluskrifstofu
Bæjarráð Grindavíkurbæjar mótmælir fyrirhugaðri lokun á sýsluskrifstofunni í Grindavík. Lokun skrifstofunnar felur í sér að þjónusta sýslumanns er lögð af í Grindavík. Meðal verkefna sýsluskrifstofunnar er að taka við umsóknum almannatrygginga. Ljóst er að ekki munu allir þjónustuþegar eiga auðvelt með að sækja þjónustuna til Keflavíkur. Lokunin leiðir einnig til þess að opinberum störfum í Grindavík fækkar um tvö, á svæði sem nú þegar býr við lægri framlög til opinberrar þjónustu en á sambærilegum svæðum.
Bæjarráð vekur athygli á því að í 3. gr. reglugerðar um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna og lögregluumdæmi lögreglustjóra nr. 66/2007 er mælt fyrir um að það skuli vera útibú frá sýslumanni í Grindavík. Sýslumanni er því óheimilt að loka skrifstofunni án heimildar dómsmálaráðherra.
Forseti bæjarstjórnar og bæjarstjóri hafa átt góðan fund með dómsmálaráðherra vegna málsins og jákvæð samskipti við sýslumanninn í Keflavík. Bæjarráð treystir því að ráðherra og sýslumaður finni góða lausn með hagsmuni Grindvíkinga að leiðarljósi.