Bæjarfulltrúi kærir valdbeitingu gegn fatlaðri dóttur
- til Velferðarráðuneytisins.
Kolfinna S. Magnúsdóttir er ósátt við verklag félagsþjónustunnar í kjölfar atviks sem kom upp á skammtímavistuninni Heiðarholti í Garði á dögunum. Kolfinna vinnur nú að kæru á hendur skammtímavistuninni. Kæran verður send Velferðarráðuneytinu í kjölfar þess að fötluð dóttir Kolfinnu var beitt meintu harðræði í skammtímavistuninni Heiðarholti.
Skammtímavistunin Heiðarholt í Garði heyrir undir Félagsþjónustu Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga. Kolfinna er bæjarfulltrúi í Garði og er því að fara að kæra eina af stofnunum sveitarfélagsins.
Í samtali við Víkurfréttir segist Kolfinna ósátt við að ekki sé til viðbragðsáætlun hjá félagsþjónustunni þegar upp koma atvik eins og það sem Kolfinna mun kæra til ráðuneytisins. Þar segir Kolfinna að fötluð dóttir hennar hafi verið beitt harðræði þegar hún var tekin með valdi og þvinguð í bað í öllum fötunum þar sem vatni var sprautað yfir hana.
„Forstöðukona Heiðarholts tilkynnti mér sjálf í símtali sem við áttum um atburðinn. Ég óskaði eftir að hún sendi mér nákvæmari lýsingu a atburðarásinni sem hún gerði. Hún tilgreinir nákvæmlega í tölvupósti til mín hvernig valdi var beitt til að þvinga dóttur mína í alklæðnaði í bað þar sem hún var síðan spúluð að hennar sögn,“ segir Kolfinna í samtali við Víkurfréttir. Umræddur tölvupóstur er nú í vörslu réttindagæslumanna dóttur Kolfinnu.
Kolfinna hefur tekið dóttur sína úr skammtímavistuninni og réttindagæslumaður dóttur hennar hefur átt fund með fjölskyldunni í kjölfar atviksins. Einnig hefur verið haft samband við Þroskahjálp, réttindagæslumenn frá Velferðarráðuneytinu, sálfræðing og sérfræðing í einhverfu vegna málsins.
Kolfinna segir að hún sé í sérstakri stöðu þar sem hún sé bæjarfulltrúi og sé að fara að kæra félagsþjónustu eigin sveitarfélags. „Fyrst og fremst stend ég með dóttur minni sem ekki getur varið sig sökum fötlunar sinnar. Það held ég að hvert einasta foreldri gerði í mínum sporum,“ sagði Kolfinna í samtali við Víkurfréttir.
Hvort kæran muni hafa áhrif á störf hennar í meirihluta bæjarstjórnar Garðs, segir Kolfinna að hún hafi rætt atvikið á skammtímavistuninni Heiðarholti við félaga sína í meirihlutanum. Kolfinna segist gera sér grein fyrir því að kæran geti kostað átök. Hvort hún muni draga sig í hlé frá bæjarstjórninni, sé erfitt að segja til um í dag. Dragi Kolfinna sig í hlé komi upp sérstök staða í bæjarstjórn Garðs. Kolfinna klauf sig frá meirihluta sjálfstæðismanna í Garði og stofnaði til meirihlutasamstarfs með N-lista og L-lista í vor. Dragi Kolfinna sig í hlé sé sá meirihluti fallinn. Það sé því úr vöndu að ráða fyrir Kolfinnu og ekki síður hvernig tekið verður á hennar málum. Kolfinna hefur lýst vanþóknun sinni á því hvernig félagsþjónustan hefur tekið á ákveðnum málum í málaflokki fatlaðra. Hún hefur þrýst á breytingar og það atvik sem hún ætlar nú að kæra til Velferðarráðuneytisins er korn sem fyllir mælinn hjá Kolfinnu.