Bæjarfulltrúi hleypur í kisubúningi
Formaður bæjarráðs Grindavíkur mun hlaupa í kisubúningi ef hún nær að safna 50 þúsund
Kristín María Birgisdóttir bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs í Grindavík ætlar að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu sem fram fer 24. ágúst. Hún ætlar að hlaupa fyrir Dýrahjálp Íslands og ef hún nær söfnunarmarkiði sínu, sem er 50 þúsund krónur, ætlar hún að hlaupa í kisubúningi. Kristín María hefur safnað 7.000 kr. nú þegar.
,,Dýravernd er mér hugleikin og Dýrahjálp Íslands er félag sjálfboðaliða sem leggur sig fram við að finna dýrum sem eru heimilislaus, ný heimili og leitast við að tryggja þeim skjól og athvarf þangað til. Varnarlausir málleysingjar eiga skilið að vel sé hugsað um þá og þess vegna hleyp ég fyrir Dýrahjálp Íslands. Ef söfnunarmarkmið næst verður hlaupið í kisubúningi," segir Kristín María á heimasíðu Reykjavíkurmaraþonsins.