Bæjarfulltrúi framsóknar eins og nakinn maður á knattspyrnuvelli – sagði formaður bæjarráðs
„Það er hægt að líkja þessu við þegar nakinn maður hleypur inn á knattspyrnuvöll með það eina að markmiði að vekja athygli á sér,“ sagði Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks eftir kvörtun Kristins Jakobssonar, oddvita framsóknarmanna í upphafi bæjarstjórnarfundar í Reykjanesbæ í gær.
Kristinn fór mikinn og kvartaði yfir því að hafa ekki fengið sendan ársreikning og fjárhagsáætlun 2010 fyrir bæjarstjórnarfundinn sem væri meðal mála á fundinum. Kristinn vísaði í fundarsköp og sagði að það ætti að senda öll gögn sem til umræðu væru á fundinum og lagði fram tillögu um að fyrri umræðu yrði frestað til næsta bæjarstjórnarfundar eða boðað til auka bæjarstjórnarfundar eftir viku.
Forseti bæjarstjórnar, Gunnar Þórarinsson (D) svaraði því til að þetta væri hefð hvernig ársreikningurinn væri fram settur í bæjarstjórn. Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi (D) sagðist ekki skilja upphlaup Kristins og sagði þetta líklega eingöngu gert til að vekja athygli á sér í fjölmiðlum en hann sagðist hafa heyrt viðtal við Kristinn í ríkisútvarpinu klukkutíma fyrir bæjarstjstjórnarfund. Þar hefði hann kvartað yfir þessu háttalagi.
„Þetta er glórulaust upphlaup, stormur í vatnsglasi,“ sagði Böðvar og bætti því að venjan væri þannig að umræðan færi að mestu fram á næsta fundi eftir kynningu á ársreikningi og fjárhagsáætlun. Þannig hefði þetta verið alla tíð í bæjarstjórninni. Nú þyrfti einnig að taka tillit til Kauphallarinnar sem fengi upplýsingar sem og fjölmiðlar.
Eysteinn Eyjólfsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar tók undir orð Kristins og sagði að það væri miklu betra ef gögnin hefðu komið fyrir fund þó svo hefðin væri önnur. Kristinn væri nýr bæjarfulltrúi og þekkti því ekki gamlar hefðir og spurning hans því eðlileg. Þessa umræðu mætti hafa í huga fyrir næsta ár og skoða hvort það mætti ekki hugsanlega breyta fyrirkomulaginu.