Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar á móti auknum þjónustugjöldum
Á síðasta fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar þann 1. október lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingar fram bókun þar sem mótmælt var hækkun þjónustugjalda í Reykjanesbæ. Friðjón Einarsson bæjarfulltrúi Samfylkingar lagði fram eftirfarandi bókun.
„Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar eru á móti því að auka álögur á íbúa Reykjanesbæjar með því að hækka þjónustugjöld eins og t.d. leikskólagjöld, gjald fyrir skólamáltíðir, tónlistarskóla og frístundaskóla um allt að 5% árið 2014 eins og sjálfstæðismenn leggja til.“
Friðjón sagði að rekstrarárin 2013 og 2014 njóti Reykjanesbær um 3-400 milljón króna afsláttar af leigugreiðslum bæjarins sem muni hækka aftur í milljarð árið 2015. „Við viljum nýta þetta tímabundna svigrúm í rekstri bæjarins m.a. til þess að hlífa íbúum Reykjanesbæjar við gjaldskrárhækkunum sem hafa verið töluverðar undanfarin ár.“ Til máls tóku einnig Árni Sigfússon og Kristinn Þ. Jakobsson. Fundargerð var samþykkt með 11 atkvæðum gegn engu.