Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bæjarfulltrúa í Garði hótað líkamsmeiðingum
Mánudagur 14. maí 2012 kl. 13:27

Bæjarfulltrúa í Garði hótað líkamsmeiðingum

Kolfinnu S. Magnúsdóttur bæjarfulltrúa í Garði hefur verið hótað líkamsmeiðingum. Í samtali við Víkurfréttir segir hún að stöðugar hringingar hafi borist til sín þar sem hótað er að gengið yrði í skrokk á henni ásamt því að allt sem hægt væri að nota til að brjóta hana niður andlega yrði notað gegn henni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Kolfinna sagði um helgina skilið við meirihluta D-listans í Garði og gekk í raðir N-listans sem mun mynda nýjan meirihluta í bæjarstjórn Garðs með L-lista.


„Ég og einnig maðurinn minn höfum fengið símhringingar þar sem honum hefur verið sagt að árásir á mig og mína fjölskyldu séu hafnar og muni fólk ekki hætta fyrr en tekist hafi að flæma okkur í burtu,“ segir Kolfinna við Víkurfréttir.


Kolfinna hefur ekki bara mátt þola hringingar því húsið hennar hefur einnig verið barið að utan.


„Maður kemst heldur betur að því hvernig grimmd fólks getur gert það sjálft að smásálum sem hafa í hótunum og berja húsið allt að utan,“ segir Kolfinna S. Magnúsdóttir sem mun leggja fram kæru hjá lögreglunni á Suðurnesjum vegna þeirra hótana sem hún og fjölskylda hennar hefur þurft að þola.