Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bað veitingamenn afsökunar
Föstudagur 16. október 2009 kl. 11:03

Bað veitingamenn afsökunar


Veitingamenn á Suðurnesjum áttu fund í gær með formanni Matvís, Níelsi S. Olgeirsyni, vegna yfirlýsinga hans um svarta atvinnustarfsemi í veitingarekstri á svæðinu.

Níels var stóryrtur í grein sem hann skrifaði í fréttablað samtakanna þar sem hann sagði m.a. að svo virtist sem það væri regla á Reykjanesi að menn færu ekki eftir lögum við rekstur veitingahúsa.  Níels bað veitingamenn afsökunar á ummælum sínum á fundinum í gær.

Fundurinn var haldinn í bækistöðvum Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis [VSFK] og sat Kristján Gunnarsson, formaður félagsins, fundinn. Um 400 félagsmenn í VSFK starfa í veitinga- og hótelgeiranum á svæðinu. Þá eru ótaldir faglærðir þjónar og matreiðslufólk þannig að talsverður fjöldi fólks á svæðinu starfar í greininni. Yfirlýsingar formanns Matvís hleypti því illu blóði í fólk.

„Þetta var mjög góður og hreinskiptur fundur. Formaður Matvís baðst velvirðingar á ógætilegum ummælum sínum og mun einnig ætla að gera það á opinberum vettvangi. Hann útskýrði einnig hvað hann átti við með því þegar hann talaði um að fólk hér suðurfrá væri mengað af veru Varnarliðsins.

Auðvitað eru því miður einhverjir örfáir sem ekki kunna að umgangast lög, reglur og kjarasamninga en það er sama gamla saman að það þarf ekki nema eitt skemmt epli í kassann til að hann fari að lykta illa.  Það kom fram skýr vilji á fundinum að slíkt verði að uppræta því svona háttarlag hindrar eðilega samkeppni. Menn nefndu ýmis dæmi um þetta á fundinum,“ sagði Kristján Gunnarsson, formaður VSFK í samtali við VF.

Kristján segir að yfirlýsingar formanns Matvís hafi þrátt fyrir allt þó orðið til þess að menn settust niður og ræddu mál sem þurfti að ræða. „Menn fundu fleti til að vinna saman að þannig að segja má að þessi neikvæða umræða hafi orðið til þess að þjappa mönnum saman til góðra verka,“ sagði Kristján.

Tengd frétt:

Veitingamenn á Suðurnesjum fá það óþvegið

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024