Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Axel Jónsson maður ársins á Suðurnesjum
Fimmtudagur 13. janúar 2011 kl. 13:21

Axel Jónsson maður ársins á Suðurnesjum

Hann elskar að þjóna fólki og hefur gert það í rúma þrjá áratugi. Núna eru það samt skólabörnin sem eiga hug hans allan. Við erum að tala um „Mann ársins á Suðurnesjum 2010“, Axel Jónsson, veitingamann og eiganda eins mest vaxandi fyrirtækis á Suðurnesjum í dag, Skólamatar ehf. Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað, er með um hálfan milljarð í ársveltu og sextíu manns í vinnu sem útbúa sex þúsund máltíðir fyrir rúmlega tuttugu leik- og grunnskóla á hverjum degi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Frá Laugarvatni til Keflavíkur
Axel er vel þekktur á Suðurnesjum. Pabbi hans, Nonni eða Jón Axelsson, var það líka, Nonni í versluninni Nonna og Bubba sem margir muna eftir á Hringbrautinni í Keflavík (þar sem fiskbúðin er núna). Axel hóf rekstur Veisluþjónustunnar hf. árið 1978 og náði fljótt árangri í veitingageiranum enda maðurinn með endemum þjónustulundaður og klár kokkur. „Þetta hefur ekki bara verið starfið mitt alla tíð heldur og er þetta líka áhugamál,“ sagði Axel þegar ritstjóri Víkurfrétta settist niður með honum til að rifja upp líf og starf á Suðurnesjum í rúma þrjá áratugi. Axel hefur löngum þótt brauðryðjandi en það var pabbi hans líka. Verslunin Nonni og Bubbi byrjaði til dæmis með kvöldopnun fyrst verslana á Suðurnesjum en þá var afgreitt í gegnum lúgu sem margir bæjarbúar í Keflavík muna eftir.

Axel er fæddur í Hafnarfirði en ólst upp í Sandgerði en móðir hans, Jóna Gísladóttir, er Hafnfirðingur. Hann á 9 hálfsystkini. Hann fór í matreiðslunám hjá Hótel Loftleiðum og lauk kokkaprófinu 1. des. 1972. Að loknu námi og stuttri dvöl á Hótel Sögu tók Axel að sér að vera skólabryti við Héraðskólann að Laugarvatni vorið 1973 og gegndi því starfi til haustsins 1978. Þá ákváðu þau Þórunn Halldórsdóttir, eiginkona hans, að flytja á hennar heimaslóðir í Keflavík. Axel ákvað strax að hefja veitingarekstur og gerði það með opnun Veisluþjónustunnar í litlu húsnæði við Smáratún 28 hér í Keflavík. Við hefjum leikinn þar og spyrjum hann aðeins út í gömlu tímana.

Fyrsti vínveitingastaðurinn á Suðurnesjum
„Það var strax töluvert að gera bæði í veislum, úrbeiningum á kjöti og ýmsu öðru er tengdist matarframleiðslu, þetta jókst stöðugt og alltaf blundaði sú hugmynd að opna veitingastað. Draumurinn varð að veruleika þann 21. apríl 1983 þegar við Þórunn opnuðum veitingastaðinn Glóðina að Hafnargötu 62. Staðurinn varð strax mjög vinsæll og Ameríkanarnir ofan af velli létu sig ekki vanta, voru mættir klukkan fimm alla daga og voru yfirleitt farnir fyrir sjö, algerir drauma viðskiptavinir. Þá komu þeir Suðurnesjamenn sem þorðu að láta sjá sig vera úti að borða, en þá þótti meira vit í því að borða heima hjá sér, svona var það þá en það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan,“ rifjar Axel upp sem þarna fékk fyrstur Suðurnesjamanna leyfi til vínveitinga með mat.
Fyrirsögn í Víkurfréttum eftir opnunina hljóðaði svona: „Suðurnesjamenn hugsa sér gott til glóðarinnar“. Axel segir að það hafi vissulega verið tímamót að geta boðið upp á vínföng og hafi hjálpað til í rekstri staðarins. Þetta var nýjung sem Suðurnesjamenn kunnu vel að meta, að geta fengið sér gott rauðvín eða hvítvín með matnum. Þremur árum síðar kom svo bjórinn til sögunnar. En hverjir voru vinsælustu réttirnir á Glóðinni á þessum tíma?
„Vinsælasti rétturinn á matseðlinum þá voru, „Blandaðir sjávarréttir“ og „Lamb Bearnais ásamt salatbarnum sem var nýjung. Umhverfi Glóðarinar var sérstakt, þótti hlýlegt og skemmtilegt og teiknað af Guðmundi Gunnlaugssyni arkitekt. Margir muna eftir „básum“ sem gátu tekið frá 4 og upp í 8 gesti. Nokkru síðar opnaði Glóðin salarkynni á efri hæðinni sem var notaður til mannamóta í mörg ár. Meðal annars var fyrsta Fegurðarsamkeppni Suðurnesja haldin þar. Axel og Þórunn seldu Glóðina eftir tæplega fjögurra ára rekstur til Kristins Jakobssonar.

Umsvifin aukast
Axel var fyrirferðamikill á þessum árum en 1985 hóf hann líka rekstur veisluþjónustu að Iðavöllum 5 og opnaði einnig skyndibitastaðinn Langbest sem var og er að mestu leyti pizzustaður. Axel rak því um tíma tvo veitingastaði við Hafnargötu 62.
„Um þetta leyti rákum við einnig flugmatarþjónustu fyrir flugfélagið Arnarflug og gekk það mjög vel framan af eða þangað til Arnarflug hætti 1988 en við það fall töpuðum við miklum peningum,“ segir Axel.
Áhuginn á flugmatnum hætti samt ekki því fljótlega eftir Arnarflugsævintýrið hitti hann Arngrím Jóhannsson flugstjóra og eiganda flugfélagins Atlanta á flugstöðinni í Luxemborg.
„Ég sagði honum að ég væri sá besti í að gera flugmat á Íslandi og hann keypti það og nokkrum dögum seinna vorum við búnir að gera samkomulag um að ég sæi um allan flugmat fyrir félagið á Íslandi. Ekki löngu síðar hætti aðal viðskiptavinur Atlanta rekstri þ.e.a.s. ferðaskrifstofan Samvinnuferðir-Landsýn sem aftur varð til þess að við hættum framleiðslu flugmatar, en Arngrímur hætti ekki að styðja við bakið á okkur og er enn t.d. hluthafi í Skólamat ehf.

Þolinmæði og þrautseigja eftir erfiðleika
Nú tóku nú við aðeins erfiðari tímar rifjar Axel upp og þau hjónin þurftu að selja húsið sitt vegna mikilla skulda. „Það var mikil reynsla fyrir okkur, en þegar maður lendir í mótbyr þá getur það bara hert mann og það var einmitt á þessum tíma sem hugmyndin að skólamat varð til. Á þessum tíma komst ég að því að ég hef líklega verið lesblindur sem hafði háð mér í rekstrinum. Ég var og er miklu betri kokkur og þjónustumaður en úr þessu varð ég að bæta til að eiga framtíð í viðskiptum. Það var þá sem ég fór til Jóns sonar míns og bað hann að kenna mér á tölvu sem hann og gerði. Í beinu framhaldi af því keypti ég mér fartölvu og bjó til skólamatarhugmyndina á þessa litlu fartölvu (sem hann sýnir blaðamanni) og gerði formúlu í lit í Excel talnaforritinu og þannig hef ég rekið mitt skólamatarfyrirtæki nú í rúman áratug, á litarkerfi og tölum og það hefur gengið upp. Það má ekki gleyma því að það hefur líka þurft mikla þolinmæði, aga, trú á verkefninu skólamat“.

En hvernig er rekstur Skólamatar í dag?
„Við erum með 57 manns í vinnu og framleiðum 6000 skólamáltíðir á hverjum degi fyrir 21 skóla á Suðurnesjum, í Hafnarfirði og í Kópavogi, “ segir Axel en Skólamatur ehf. er elsta fyrirtæki á landinu sem sérhæfir sig í framleiðslu skólamatar en upphaflega fékk Axel hugmynd að því að gera heitan mat fyrir nemendur þegar hann var í skólanefnd Keflavíkurbæjar. Hún varð þó ekki að þeirri hugmynd sem hún er nú fyrr en seinna. Nú er fyrirtækið mjög öflugt og reksturinn gengur vel. Margra ára þróunarvinna og þolinmæði hefur skilað sér.

Gott starfsfólk
„Allt þetta hef ég alls ekki getað gert nema með góðu starfsfólki mér við hlið. Það er, grundvöllur að góðu fyrirtæki og ég hef verið svo lánsamur að hafa alla tíð haft gott starfsfólk. Mínir helstu samstarfsmenn í gegnum tíðina hafa verið matreiðslumennirnir Sigurberg Jónsson, Magnús Þórisson, Rúnar Smárason, Edvard Loftsson og síðast en ekki síst starfsmaður minn til margra ára í gegnum súrt og sætt, hann Guðjón Vilmar Reynisson.
Auðvitað hafa margir fleiri komið við sögu, kokkar, þjónar og fleira gott starfsfólk.“

Þegar Axel er spurður út í fjármálalegu hiðina við uppbyggingu Skólamatar ehf. nefnir hann Sparisjóðinn í Keflavík fyrst og segir að þar hafi hann fengið góðan skilning. „Mér tókst að sannfæra Sparisjóðsmenn um Skólamatarhugmyndina og þrátt fyrir mikla fjárhagserfiðleika hjá mér um tíma studdu þeir mig í uppbyggingunni. Fyrir það er ég Sparisjóðnum og hans starfsfólki ákaflega þakklátur.“

Fjölskyldan í Skólamat
Skólamatur ehf. fagnaði tíu ára afmæli í fyrra og á undanförnum árum hafa börnin hans komið inn í fyrirtækið og Axel segir að það sé mikil gæfa fyrir þau Þórunni. Það sé alls ekki sjálfgefið að börnin manns vilji vera í fyrirtækjarekstri með foreldrunum. „Við erum náttúrulega ákaflega lukkuleg með það. Börnin okkar, Fanný og Jón, hafa að mestu leyti tekið við stjórninni þó svo ég sé auðvitað ennþá á staðnum. Þau eru bæði mjög dugleg, hafa menntað sig og standa sig vel við stjórn fyrirtækisins.“

Margir Suðurnesjamenn hafa átt viðskipti og góð samskipti við Axel í gegnum tíðina því maðurinn er þekktur fyrir gjafmildi og góðsemi. Það þekkja margir og þær eru ófáar sögurnar til um það sem hér verða ekki sagðar en þó er stutt síðan hann bauð hundruð félögum björgunarsveita í mat og Velferðarsjóður Suðurnesja hefur notið krafta hans. Þegar Axel er spurður út í gæfu og gjörvileika verður hann alvarlegur og það liggur ekki á svarinu.
„Þegar erfiðleikar mínir voru sem mestir og ég í raun búinn að missa allt, stóð ég uppi með skuldir en ég ákvað að ég skyldi aldrei gefast upp. Ég hafði tú á sjálfum mér og vissi að ég gæti gert þetta allt, náð mér upp úr þessu. Þá ákvað ég eitt sinn með sjálfum mér að þegar ég næði mér á strik aftur, skyldi ég leyfa fleirum að njóta þess með mér. Það hef ég nú þegar gert með ýmsum hætti, m.a. í gegnum Lionsklúbb Keflavíkur og Oddfellowstúkuna Njörð. Einnig höfum við látið gott af okkur leiða hjá hinum ýmsu félagasamtökum og íþróttafélögum á Suðurnesjum. Satt best að segja þá líður mér svakalega vel þegar ég gef af mér. Það gefur mér mjög mikið að geta hjálpað öðrum.“

Uppsker eins og maður sáir
Aðspurður um erfiða stöðu víða á Suðurnesjum í miklu atvinnuleysi segir Axel ljóst að margir eigi í erfiðleikum.
„Ég veit að margir eiga um sárt að binda um þessar mundir, ég var t.d. einu sinni atvinnulaus og veit þess vegna hvað það er. Við misstum aldrei vonina, höfðum trú á okkur sjálfum. Mér finnst mikilvægt að maður geri það sem maður hafi trú á og fylgi eigin sannfæringu. Þó það sé gott að fá ráð frá öðrum verður maður að gera það maður telur rétt og keyra á það. Það má ekki gleyma þeirri staðreynd að maður uppsker eins og maður sáir. Það eru ótrúlega sterk orð en sönn. Þá má ekki gleyma kirkjunni sinni. Þar öðlast maður frið, og ró og bjartari framtíð í hjörtum okkar,“ sagði maður ársins á Suðurnesjum 2010.

[email protected]

Axel með hressum nemendum Gerðaskóla í hádegismat. Að ofan er hann með börnum sínum, Jóni og Fanný en þau starfa bæði í fyrirtækinu.

Axel við risavaxna pottana. Að neðan má sjá úrklippu úr VF árið 1983.