Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Auknar líkur á eldgosi
Svartsengi og eldstöðvarnar við Sundhnúkagíga. Mynd: Jón Steinar Sæmundsson
Föstudagur 29. desember 2023 kl. 14:33

Auknar líkur á eldgosi

Land við Svartsengi hefur nú náð sambærilegri hæð og mældist rétt fyrir eldgosið 18. desember

Land heldur áfram að rísa við Svartsengi. Við GPS stöðina í Svartsengi (SENG) hefur land nú náð sambærilegri hæð og mældist rétt fyrir eldgosið 18. desember. Hraði landrissins síðan 18. desember hefur haldist nokkuð stöðugur sem er frábrugðið stöðunni fyrir síðasta gos, en þá hægðist á landrisi vikurnar fyrir gosið. Erfitt er þó að fullyrða um að landris hægi á sér í aðdraganda næsta goss, en það hefur þó verið tilfellið í gosum sem hafa orðið á Reykjanesskaga síðustu ár og var einnig notað til viðmiðunar í Kröflueldum. Óvissa er hins vegar um hversu mikill kvikuþrýstingur þarf að byggjast upp áður en kvika fer að leita upp á yfirborðið. Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofu Íslands.

Landrisinu nú fylgir ekki eins mikil skjálftavirkni og áður. Ástæða þess er að í atburðunum 10. nóvember og 18. desember losnaði um mikla spennu á svæðinu þegar kvika braut sér leið í jarðskorpunni. Í aðdraganda síðasta goss urðu allnokkrir skjálftar yfir 3 og einn yfir 4 að stærð. Samfara áframhaldandi landrisi er líklegt að skjálftavirkni aukist aftur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á meðan að kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi eru líkur á öðru kvikuhlaupi og að það leiði til eldgoss. Líkurnar aukast með hverjum deginum sem líður. Líklegast er að það gjósi aftur á Sundhnúksgígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Mikilvægt er að rifja upp að kvikuhlaup enda ekki alltaf í eldgosi, eins og dæmi eru um í tengslum við virknina við Fagradalsfjall og eins í Kröflueldum.

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumatskort byggt á samtúlkun gagna á samráðsfundi vísindafólks sem haldinn var nú í morgun. Mat á hættustigi innan svæðanna er óbreytt frá því síðast. Breyting hefur þó verið gerð á þeim hættum sem eru mögulegar innan svæðis 4, Grindavík. Þar hafa bæst við hættur vegna hugsanlegs hraunflæðis og gasmengunar. Ástæða breytinganna eru auknar líkur á eldgosi norðan Grindavíkur. Þær breytingar hafa þó ekki áhrif á heildarmat á hættustigi svæðisins. Þetta hættumatskort gildir til 5. janúar að öllu óbreyttu.

Það er mikilvægt að árétta að síðasta gos hófst með mjög skömmum fyrirvara. Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið gaumgæfilega allan sólarhringinn og er í beinu sambandi við almannavarnir um stöðu mála.