Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Auknar fjárveitingar í héraði draga úr sóun í heilbrigðiskerfinu
Miðvikudagur 25. maí 2022 kl. 10:33

Auknar fjárveitingar í héraði draga úr sóun í heilbrigðiskerfinu

„Það hefur blasað lengi við að fjárveitingar til ríkisstofnana á Suðurnesjum hafa ekki tekið mið af þeirri gríðarlegu aukningu á fjölda íbúa á svæðinu sem hefur átt sér stað undanfarin ár. Þegar einnig er litið til þess að launakostnaður hefur einnig hækkað verulega undanfarin misseri má leiða líkur að því vandinn sé vaxandi.“ Þetta kemur fram í pistli sem Heilbrigðisstofnun Suðurnesja birti á samfélagsmiðlum.

Þá segir: „Þetta hefur m.a. leitt til þess að íbúar Suðurnesja hafa í miklum mæli ekki fengið úrlausn sinna erinda í héraði. Afleiðingin er sú að íbúarnir hafa neyðst til að leita í dýrari úrræði á höfuðborgarsvæðinu, t.d. á Landspítala.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það var með hliðsjón af þessum forsendum sem HSS leitaði til ráðgjafafyrirtækisins Deloitte að leggja mat á getu stofnunarinnar til að veita hverjum íbúa þjónustu miðað við síðustu fimmtán ár.

Samkvæmt skýrslu Deloitte kemur afar skýrt fram að geta stofnunarinnar til að veita hverjum íbúa þjónustu hefur minnkað um 22% miðað við fjárveitingu á hvern íbúa. Á sjúkrasviði HSS sem sinnir m.a. slysa- og bráðaþjónustu hefur lækkunin numið 45% á hvern íbúa.

Helstu forsendur skýrslu Deloitte eru þær að 88% af rekstrarútgjöldum HSS fylgja þróun launa og 12% fylgir þróun vísitölu neysluverðs. Það þýðir að ef stofnunin eigi að hafa tök á að veita sömu þjónustu og áður þyrftu fjárveitingar til stofnunarinnar að fylgja þessari þróun kostnaðar, ásamt fjölgun íbúa.

Til viðbótar þarf einnig að taka fram að kröfur til heilbrigðisstofnana um veitingu þjónustu hafa aukist verulega, t.d. rekstur geðheilsuteyma. Af þeim sökum hefur skerðing annarrar þjónustu stofnunarinnar verið enn meiri en kemur fram í ofangreindum tölum.

Að mati HSS er mikilvægt að fjárveitingar til stofnunarinnar taki mið af ofangreindu og koma þannig í veg fyrir að erindin séu leyst í dýrari úrræðum á höfuðborgarsvæðinu. Á næstu árum má búast við frekari uppbyggingu á Suðurnesjum, fjölgun íbúa og atvinnutækifæra og er vandinn því vaxandi. Þetta snýr því ekki einvörðungu að rétti íbúa Suðurnesja til að fá fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í héraði, heldur einnig að sóun á dýrmætu almannafé.“