Aukinn ferðamannastraumur til Grindavíkur
Ferðaþjónustuaðilar í Grindavík eru flestir afar ánægðir með sumarið það sem af er. Þeir eru sammála um að töluverð aukning ferðamanna hefur verið í Grindavík í sumar. Ber aðsóknin á nýja tjaldsvæðinu glöggt vitni um það en mikil aukning hefur verið þar í sumar. Er það tilfinning flestra að útlendir ferðamenn hafi verið hér mun fjölmennari en áður og ferðaþjónustuaðilar horfa spenntir til þess tíma þegar nýr Suðurstrandarvegurinn verður malbikaður alla leið og fullgerður.
Ekki liggja fyrir staðfestar aðsóknartölur af tjaldsvæðinu fyrr en í september en þar hefur aðsóknin verið feikilega góð í sumar. Eftir að nýtt þjónustuhús var tekið í gagnið og í kjölfar auglýsingaherferðar hefur verið margt um manninn á tjaldsvæðinu og sló júlí líklega öll met. Þjónustukönnun hefur verið í gangi á tjaldsvæðinu í sumar og verður fróðlegt að bera hana saman við könnun sem var gerð 2009. Tjaldsvæðisgestir sem rætt hefur verið við eru hæst ánægðir með tjaldsvæðið og þjónustuhúsið.
Aðilar í veitingaþjónustu eru flestir ánægðir með sumarið. Ferðaþjónustuaðilar eins og Fjórhjólaævintýri segja aukninguna töluverða á milli ára og sömu sögu má segja um gistingu og verslun, svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur aðsókn í Kvikuna í sumar verið með ágætum og Bláa lónið segir stefna í met ár.