Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aukin notkun bílbelta
Miðvikudagur 22. desember 2004 kl. 13:46

Aukin notkun bílbelta

Lögreglan í Keflavík hefur birt á vefsíðu sinni niðurstöður úr mælingum á bílbeltanotkun ökumanna á Suðurnesjum. Þar kemur í ljós að bílbeltanotkun í þéttbýli á Suðurnesjum árið 2004 var að meðaltali 86% en á síðasta ári var hún um 77%. Er þá hægt að lesa úr því að bílbeltanotkun hefur aukist um rúm 9%.

Utan þéttbýlis á árinu 2004 er bílbeltanotkun um 93% en á árinu 2003 var beltanotkunin um 90% þannig að hún hefur aukist um 3%.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafa 411 ökumenn verið kærðir á Suðurnesjum vegna þess að þeir notuðu ekki bílbelti en á sama tíma á síðasta ári voru 366 ökumenn eða 45 fleiri á þessu ári.

1720 ökumenn hafa verið kærðir fyrir vanrækslu á notkun öryggisbelta í öllum lögregluumdæmum landsins þar af tæpur fjórðungur í umdæmi Sýslumannsins í Keflavík.

Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, sagði í samtali við Víkurfréttir að slysum hafi fækkað í árekstrum, útaf keyrslum og veltum sem rekja megi til aukinnar notkunar á beltum. Segir hann samt sem áður að fólk noti ekki beltið nógu mikið. „Þetta er ódýrasta og besta tryggingin í umferðinni,“ sagði Jóhannes.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024