Aukin hverfagæsla í Reykjanesbæ til reynslu
Securitas og Reykjanesbær hafa gert með sér samning um hverfagæslu til reynslu frá 19. des. til loka janúar.
Þjónustan felur í sér að mannaður, sérmerktur bill ekur um hverfi bæjarins og hefur vakandi auga með óæskilegri umferð, eftirlit með eignum íbúa og sveitarfélagsins. Þá verður fylgst m eð hópamyndun barna og unglinga, frágangi á byggingasvæðum og öðru sem athygli vekur.
Markmið verkefnisins er að draga úr hættunni á skemmdarverkum og innbortum í íbúðir og fyrirtæki. Þá standa vonir til að verkefnið fækki eða komi í veg fyrir skemmdir á eignum almennings og Reykjanesbæjar, s.s. strætóskýlum og merkingum, skólahúsnæði og fleiri eignum.
Í lok tímabilsins mun Securitas Reykjanesi láta frramkvæma skoðanakönnun á meðal íbúa bæjarins. Í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um framhald verkefnisins.
Kjartan Már Kjartansson, framkvæmdastjóri Securitas á Reykjanesi og Árni Sigfússon, bæjarstjóri undirrituðu samning þessa efnis en viðstaddur var einnig Gunnar Schram frá lögreglunni á Suðurnesjum. Gunnar sagði þetta jákvæða tilraun og yrði góð viðbót við þá vinnu sem lögreglan sinnir. Ekki væri um að ræða neina skerðingu á henni þrátt fyrir þessa tilraun.
Frá undirritun samningsins um aukna hverfagæslu til reynslu, f.v. Gunnar, Árni og Kjartan Már.
Magnús Reyr Agnarsson, þjónustustjóri gæslusviðs hjá Securitas á Reykjanesi, við sérmerktan bíl sem notaður verður við hverfagæsluna.