Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 19. júní 2000 kl. 15:06

Aukin hagkvæmni í rekstri

Reiknistofa fiskmarkaða hf. og Íslandsmarkaður verða sameinuð frá 1. júlí 2000, skv. samkomulagi sem stjórnir félaganna hafa undirritað. Sameiningin á án efa eftir að auka hagkvæmni fyrirtækjanna og hagnað, að sögn Ingvars Arnar Guðjónssonar, framkvæmdastjóra hins nýstofnaða félags.Bæði félögin hafa annast rekstur tölvukerfa fyrir fiskmarkaði landsins og er tilgangur sameiningarinnar að auka hagkvæmni í rekstri, að auðvelda frekari uppbyggingu tölvukerfanna, að auka möguleika á að flytja út íslenska þekkingu á þessu sviði, og að bæta þjónustu við fiskmarkaði, fiskkaupendur og seljendur. Samruninn gerist þannig að Reiknistofa fiskmarkaða hf. tekur yfir allar eignir og skuldir Íslandsmarkaðar hf. og verður nafni félagsins breytt og mun heita Íslandsmarkaður hf. þegar hinu formlega samrunaferli lýkur. Ingvar Örn Guðjónsson, sem hefur verið framkvæmdastjóri Reiknistofu fiskmarkaða hf., verður framkvæmdastjóri hins sameinaða félags. „Í dag eru 22 fiskmarkaðir dreifðir í kringum landið og hingað til hefur fiskurinn verið seldur á tveimur sölukerfum. Fiskkaupendur hafa því þurft að hafa bankaábyrgðir á báðum kerfunum, en þær kosta auðvitað peninga. Ég tel því að samruninn ætti að hafa aukna hagræðingu og þægindi í för með sér fyrir kaupendur. Nú geta þeir einnig nálgast yfirlit á einum stað, yfir allt sem þeir hafa keypt á mismunandi mörkuðum“, sagði Ingvar. Aðspurður sagði hann að samruninn ætti tvímælalaust eftir að hafa aukna hagkvæmni í för með sér fyrir fiskmarkaðina. Þess má geta að á síðasta ári seldur markaðirnir samanlagt 107 þúsund tonn af fiski fyrir 11,7 milljarða króna. Áætlað er að allir fiskmarkaðir landsins fari að vinna með sama kerfið í september nk. og þá verður aðeins einn þjónustuaðili fyrir fiskmarkaðina.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024