Aukin hætta vegna gasmengunar
Eldvirknin á gosstöðvunum við Sundhnúk helst stöðug á milli daga. Lítil sem engin skjálftavirkni er í kvikugagninum eða í nágrenni hans. Aflögun í formi landriss á svæðinu við Svartsengi hefur verið afar væg síðan kvikuhlaupið átti sér stað og gos hófst þann 16. mars. Það bendir einkum til þess, samkvæmt frétt Veðurstofu Íslands, að kvikan safnist síður fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi en flæði frekar beint út um gosopin. Þó gætu verið vísbendingar um að landris í Svartsengi hafi aukist síðan þá, en ekki er hægt að fullyrða um það að svo stöddu. Mælingar næstu daga munu þó leiða slíkt betur í ljós.
Veðurspáin í dag (föstudag) er norðan- og norðnorðvestanstæðir vindar upp á um 8-15 m/s og norðaustlægari átt undir kvöld með heldur hægari norðaustanátt á morgun. Gasmengunin verður undan þeim áttum því mest til suðurs af gosstöðvunum eða í og við Grindavík. Gasdreifingarspá má finna hér.
Aukin hætta vegna gasmengunar
Hættumat hefur verið uppfært og gildir það frá kl. 15 í dag föstudaginn 22. mars til kl. 15 mánudaginn 25. mars haldist staðan óbreytt. Hætta af völdum gasmengunar er metin meiri á öllum svæðum m.v. síðastliðna daga. Það er vegna veðurspár næstu daga og hærri mældra gilda á flæði brennisteinsdíoxíð (SO2) frá gígunum og hraunbreiðunni nú en áður. Á svæðum 1 og 5 (norðvestan gosstöðvanna) er hætta vegna hraunflæðis minni en síðastliðna þrjá daga vegna stöðugleika hraunbreiðunnar norðan gosstöðvanna og núverandi hraunflæðis sem leitar einkum til suðurs. Hraunbreiðan er þó enn hættuleg sökum þess hve stutt er síðan hún myndaðist.
(Smellið á kortið til sjá það stærra)