Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Aukin fjölbreytni í starfsemi bókasafnsins
Fimmtudagur 2. febrúar 2006 kl. 09:42

Aukin fjölbreytni í starfsemi bókasafnsins

Útlánum hefur fækkað nokkuð á Bókasafni Reykjanesbæjar en það er gömul saga á almenningsbókasöfnum á uppgangstímum. Þetta kemur fram í ársskýrslu bókasafnsins árið 2005 sem er kynnt á heimasíðu Reykjanesbæ í dag.

Útlán eru heldur ekki lengur einhlítur mælikvarði á starfsemi safna því fjölbreytni í starfseminni hefur aukist verulega á síðustu árum og gestir á Bókasafni Reykjanesbæjar voru yfir 300 á dag að meðaltali.

Mikil vinna fólst í því að tengja bókakost safnsins við Gegni sem er nýtt, sameiginlegt bókasafnskerfi flestra bókasafna í landinu og aðgengilegt á Netinu. Því verki er að mestu lokið og útlánakerfið verður tekið í notkun á næstu vikum. Lánþegar geta þá fylgst með útlánastöðu sinni, jafnvel framlengt sjálfir bókum og pantað safngögn í gegnum Netið. Til þess fá þeir aðgangsorð afhent á safninu. Samhliða tengingu safnkostsins hefur verið gert átak í grisjun.

Bókasafnið átti ánægjulegt samstarf við ýmsa hópa á árinu, bæði í menningar- og fræðslumálum er orðinn fastur liður í starfseminni. Má þar nefna Byggðasafn, menningarfulltrúa, Miðstöð símenntunar, tónlistarskóla og leikskóla bæjarins. Safnið tekur einnig þátt í fjölmenningarstarfi á vegum bæjarins og lestrarmenningarverkefninu.

Samkvæmt starfsáætlun safnsins fyrir árið 2006 verða megináherslur í starfsemi þess fjórar:
1. Áframhaldandi uppbygging upplýsingaveitu sveitarfélagsins skv. framtíðarsýn 2002-2006.
2. Aukin þjónusta úti í samfélaginu og markaðssetning safnsins
3. Efling upplýsingafærni þeirra íbúa sem ekki hafa þegar náð góðu valdi á henni
4. Endurskipulagning húsnæðis safnsins og endurnýjun húsbúnaðar til að mæta breyttum þörfum

Af vef Reykjanesbæjar
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024