Aukið öryggi á Nesvöllum
Í dag var undirritaður á Nesvöllum samstarfssamningur milli Öryggismiðstöðvarinnar og Nesvalla um öryggisþjónustu á Nesvöllum. Samningurinn felur í sér náið samstarf um uppbyggingu öruggrar búsetu á Nesvöllum. Meðal öryggislausna sem nú verða innleiddar er þjónustusími sem er opinn allan sólarhringinn fyrir alla íbúa Nesvalla, vöktun öryggishnappa og innbrotskerfa og eftirlit með lóðum og byggingum á Nesvöllum.
Að sögn forsvarsmanna Nesvalla er þjónustusíminn er kærkomin viðbót við þjónustuframboð Nesvalla og mikilvægur hluti af öryggisnetinu á staðnum. Í símann geta íbúar hringt og fengið aðstoð og leiðbeiningar um flesta hluti hvort sem um er að ræða áríðandi hluti eða hversdagsleg atriði. Íbúum Nesvalla verður janframt gert auðveldara að koma sér upp neyðarhnöppum og innbrotaviðvörunarkerfi frá Öryggismiðstöðinni. Slíkur búnaður hefur á umliðnum árum margsannað gildi sitt. Jafnframt munu öryggisverðir fara vaktferðir um svæðið og tryggja þannig enn frekar öryggi íbúanna á sínu eigin heimili, segir í tilkynningu.
VF-mynd/elg: Fulltrúar Nesvalla og Öryggismiðstöðvarinnar undirrituðu og handsöluðu samninginn í blíðviðrinu í dag. Talið frá v. Inga Lóa Guðmundsdóttir, Ragnar Þór Jónsson, Sigurður Garðarsson og Auður Lilja Davíðsdóttir.