Aukið orkuöryggi með nýrri sorporkustöð í Helguvík
Sorporkustöð með 140 þúsund tonna afköst á ári geti verið mikilvægt „púsl“ til að auka orkuöryggi á Suðurnesjum.
Niðurstöður úr nýrri skýrslu um hvort hagkvæmt sé að brenna úrgangi til orkuvinnslu hér á landi í nýrri hátæknisorpbrennslu eru jákvæðar. Það sé hagkvæmara að brenna úrgangi til orkuvinnslu en að flytja hann úr landi. Til skoðunar er að staðsetja stöðina sem myndi kosta 20-40 milljarða í Bergvík/Helguvík á Suðurnesjum.
Orkan, heita vatnið og rafmagnið sem stöðin myndi framleiða er umtalsverð og hugmyndin er að nýta hana og staðsetja brennsluna í samræmi við það. Hátæknibrennslustöð með 140 þúsund tonna afköst á ári geti verið mikilvægt „púsl“ til að auka orkuöryggi á Suðurnesjum og auka framboð á orku sem nú er umframeftirspurn eftir. Ef hugmyndin hlýtur brautargengi er næsta skref að stofna undirbúningsfélag til að vinna frekari greiningar- og undirbúningsvinnu. Sorpa, Kalka, HS Orka og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hafa sýnt áhuga á að koma að stofnun slíks félags.
Þegar hugmyndin kom upp á borð árið 2021 lýstu sveitarfélögin á Suðurnesjum yfir stuðningi við þessa uppbyggingu í Helguvík.