Auka aðgengi hreyfihamlaðra með því að rampa upp Reykjanesbæ
Unnið er af krafti við að rampa upp Reykjanesbæ. Nú þegar hafa verið settir upp tuttugu og þrír rampar í bæjarfélaginu í verkefninu Römpum upp Ísland og þeir verða orðnir fimmtíu og þrír í bænum að fjórum árum liðnum. Aðgengi á Íslandi er oft mjög takmarkandi fyrir hreyfihamlaða. Því er mikilvægt að koma upp römpum eða tryggja aðgengi með öðrum hætti. Ramparnir geta verið jafn misjafnir og þeir eru margir – og þeir eiga svo sannarlega að vera margir. Oft þarf ekki annað en að leysa aðgengi upp eina tröppu eða yfir háan þröskuld með einföldum hætti. „Með sameiginlega átaki þjónustuaðila, verktaka og yfirvalda á þetta ekki að vera mikið mál – og með því stuðlum við að bættu umhverfi og betra aðgengi á Íslandi,“ segir á vef Römpum upp Ísland en markmið verkefnisins er að setja upp eitt þúsund rampa fyrir 11. mars 2026.
Auka aðgengi hreyfihamlaðra
Tilgangur verkefnisins er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum á Íslandi. Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er hvatamaður verkefnisins. Stofnfé sjóðsins eru framlög einstaklinga, fyrirtækja, samtaka og stofnana sem vilja leggja sitt af mörkum til að tryggja aðgengi hreyfihamlaðra um allt land.
Ánægjulegt að þetta sé að raungerast núna
„Það er gleðilegt að sjá alla þessa fallegu rampa þegar maður keyrir eftir Hafnargötunni og þetta hefur gengið svo vel,“ segir Ósk Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar og varaformaður Römpum upp Ísland. „Það gekk ótrúlega vel að rampa upp Reykjavík og þar sáum við að þetta er hægt og ákváðum því að fara alla leið og rampa upp Ísland og erum rétt að byrja á því verkefni.
„Það er virkilega ánægjulegt að þetta sé að raungerast núna,“ segir Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, en hún á einnig sæti í stjórn félagsins Römpum upp Ísland.
Reykjanesbær er framarlega í ferlinu í að rampa upp landið og það segir Halldóra Fríða vera vegna áhuga sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og starfsmanna sviðsins ásamt verslunareigendum í Reykjanesbæ. Reykjanesbær var búinn að sækja um að vera þátttakandi í verkefninu Römpum upp Ísland áður en fyrsti stjórnarfundur var haldinn í verkefninu.
Vorum tilbúin í verkefnið
„Þá var Reykjanesbær með aðgengisfulltrúa í vinnu síðasta sumar sem gerði góða úttekt og þess vegna var undirbúningsvinnan lítil – við vorum bara tilbúin í verkefnið,“ segir Halldóra Fríða.
Alls verða settir upp fimmtíu og þrír rampar í Reykjanesbæ. Flestir verða þeir við Hafnargötuna þar sem mesta mannlífið er. Staðsetning rampanna hefur verið valin í samstarfi við bæjaryfirvöld. Þegar hafa verið settir upp tuttugu og þrír rampar í Reykjanesbæ og rampurinn, sem formlega var vígður síðastliðinn fimmtudag framan við verslunina Kóda á Hafnargötu, er þrítugasti rampurinn sem settur er upp utan Reykjavíkur.
„Aðgengismál skipta okkur hjá Sjálfsbjörgu gríðarlega miklu máli, að fólk geti sótt þjónustu, hver sem hún er, og að fólk geti tekið þátt í lífinu,“ segir Ósk frá Sjálfsbjörgu.