Auglýsa eftir samstarfsaðila um rekstur Akursels
Reykjanesbær auglýsir eftir samstarfsaðila um rekstur leikskólans Akursels, sem er nýbyggður sex deilda leikskóli fyrir allt að 140 börn samtímis. Leikskólinn er 1.056m² og lóðarstærð 10.395m². Reykjanesbær leggur til fullbúið húsnæði með föstum innréttingum en ekki öðrum búnaði, frágenginni lóð og leiktæki samkv. teikningu. Gert er ráð fyrir að skólinn hefji starfsemi 1. september 2007.
Markmið rekstursins
Verkið felst í rekstri leikskólans Akursels við Tjarnabraut 1 í Reykjanesbæ. Markmið rekstursins er að gefa börnum kost á að njóta handleiðslu sérmenntaðs fólks og búa þeim uppeldisskilyrði sem efla persónulegan og félagslegan þroska þeirra.
Gert er ráð fyrir að öll börn, sem eru í leikskólanum, geti fengið fullt fæði þ.e. morgun- og síðdegishressingu ásamt hádegisverði. Fullkomið eldhús er hluti hússins.
Samstarfsaðili skal í tilboði sínu gera ráð fyrir fullnýtingu vistunarrýma. Verði nýting minni skal samið sérstaklega um það. Full nýting miðast við að öll börn geti dvalið daglega í 8 klst. á milli 7:30 og 17:15.
Samstarfsaðili skal sjá um að fá rekstur samþykktan af viðkomandi yfirvöldum og greiða allan kostnað sem hlýst af því að fá samþykktir á starfsleyfisveitingum og rekstrarheimildum o.þ.h.
Verkefnið sem hér um ræðir fellur undir einkaframkvæmdir. Með henni verður Reykjanesbær kaupandi þjónustunnar frá einkaaðila. Eigandi húsnæðis er Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. og verkkaupi Reykjanesbær.
Gert er ráð fyrir að samstarfsaðili sinni rekstri leikskóla og leggi til allan lausan búnað og leiktæki.
VF-mynd/elg: frá fyrstu skóflustungunni að Akurseli