Auðveldara að sækja fé erlendis en til ríkisvaldsins
Nemendur á fyrsta ári í Fisktækniskóla Íslands (FTÍ), sem starfræktur er í Grindavík, eru á leið til Danmerkur á tveggja vikna námskeið. Að sögn Ólafs Jóns Arnbjörnssonar, framkvæmdastjóra FTÍ, þá er ferðin liður í námi nemenda. Byrjað verður á námskeiði um meðferð og viðhald fiskvinnsluvéla hjá Marel í Álaborg. Að því loknu verður farið til Árósa og tekið námskeið í suðu og fínsmíði í rústfríu efni í verknámsskóla. Ferðinni lýkur hjá samstarfsskóla FTÍ – Fiskeriskolen í Thyborön en þar verður boðið upp á nokkur stutt námskeið, m.a. í nútíma fjarskiptum og öryggismálum um borð í fiskiskipum.
„Fáir átta sig á því að Danir eru ekki bara mjög stórir þegar kemur að vinnslu og sölu sjávarafurða og þjónustu heldur gera þeir einnig menntun á þessu sviði alveg sérstaklega hátt undir höfði,“ segir Ólafur Jón. „Þeir hafa byggt upp fyrirmyndar aðstöðu með öllum búnaði. Þá eru þeir með sitt eigið skólaskip sem okkar nemendur koma til með að njóta góðs af í ferðinni.“
Áformað er að nemendur frá Thyborön komi síðan til Íslands á næsta ári, en þeir hafa fyrst og fremst sóst eftir fræðslu á þeim sviðum þar sem Íslendingar eru sérstaklega sterkir, svo sem meðferð á afla og vinnslu auk veiðitækni. Ferð nemenda í FTÍ er kostuð af Leonardó menntaáætluninni, en Íslendingar hafa verið aðilar að því samstarfi frá árinu 1996.
Ólafur telur að betur mætti búa að menntun í sjávarútvegi fyrir Íslendinga. Hann bendir á að nágrannar okkar á Norðurlöndum hlúi mun betur að menntun í þessari grein en Íslendingar sem þó eru taldir meðal færustu sjávarútvegsþjóða í heimi. Ólafur bendir á að Danir reki fullkomið skóla- og kennsluskip fyrir sína nemendur og nýverið tóku Færeyingar í notkun nýtt húsnæði undir kennslu í þessari grein að verðmæti 800 millj. króna. Fistækniskóli Íslands í Grindavík er í leighúsnæði sem kostað er af heimamönnum í Grindavík.
Nítján nemendur stunda nú nám í FTÍ. 12 nemendur fara á aðra önn í haust og á sama tíma hefur nýr hópur 12 nemenda nám við skólann. Í vor verða í fyrsta sinn útskrifaðir nemendur frá skólanum sem lokið hafa tveggja ára námi. Nám í fisktækni var þróað í Grindavík í samstarfi við helstu hagsmunaaðila í greininni. Námið er kostað af heimamönnum og sjáfsaflafé og að því loknu lagt í hendur ríkisvaldsins eins og hvert annað framhaldsnám.
„Það hefur verið þyngra en tárum tekur að fá yfirvöld til að koma að þessu með nauðsynlegt fjármagn og tryggja skólanum verðuga framtíð,“ segir Ólafur Jón. „Það verður að teljast kaldhæðni örlaganna að það skuli reynast auðveldara að sækja fé erlendis til menntunar í grunnatvinnuvegi þjóðarinnar.“