Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 13. maí 1999 kl. 10:46

ATVINNUUPPBYGGING NÝSKÖPUNARSJÓÐS Á LANDSBYGGÐINNI: KOMA 250 MILLJÓNIR TIL SUÐURNESJA?

Nýsköpunarsjóður skal lögum samkvæmt verja 1.000 milljónum til þátttöku í fjárfestingarfyrirtækjum í því skyni að stuðla að nýsköpun- og atvinnuuppbyggingu með áherslu á landsbyggðina, einkum á sviði upplýsinga- og hátækni. Útboðsfrestur vegna Framtakssjóðs Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins rann út þann 15. apríl sl. Sparisjóðurinn í Keflavík, Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands og Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar standa saman að einu hinna 9 tilboða sem bárust í milljarð króna útboð sjóðsins. Gert er ráð fyrir 125 milljón króna mótframlagi tilboðsaðila og verða því til fjórir 375 milljón króna sjóðir. Ljóst er að tilkoma sjóðs af þessari stærðargráðu yrði mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf á svæðinu. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins metur tilboðin og semur að því loknu við 4 aðila. Jóhann B. Jónsson hjá Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar sagði ágæta möguleika á að tilboði þeirra yrði tekið. „Þetta er stórt atvinnusvæði sem sameinast um eitt tilboð, svæði sem sýnt hefur fram á nýsköpunarvilja á mörgum sviðum. Möguleikar allra eru jafnir en við teljum að sýna verði fram á talsverða vankanta á umsókn okkar verði framhjá okkur gengið og við teljum okkur fyllilega standa undir kröfum sjóðsins.“ Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri, sagði úthlutunina skipta Suðurnesin miklu máli. „Þetta yrði mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið á svæðinu og hvati til áframhaldandi nýsköpunar. Menn hafa beðið síðan 1997 eftir aðgerðum Nýsköpunarsjóðs í þessum málum og ánægjulegt að þetta sé komið til framkvæmda. Þá vill svo skemmtilega til að þetta er líklegast fyrsta sameiginlega verkefni nýs Suðurlandskjördæmis. Nú er ekkert annað að gera en vera bjartsýnn á að hljóta náð fyrir augum Nýsköpunarsjóðs.„ Samkvæmt upplýsingum VF verður ákvörðun tekin um úthlutun úr Framtakssjóði á stjórnarfundi Nýsköpunarsjóðs þann 21. maí næstkomandi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024