Atvinnutorg opnað í Reykjanesbæ
Nýtt atvinnutorg, sem er samvinnuverkefni Reykjanesbæjar, Velferðarráðuneytisins og Vinnumálastofnunar Suðurnesja, tók formlega til starfa sl. föstudag. Það voru þeir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, sem hleyptu verkefninu af stokkunum.
Atvinnutorgið er úrræði fyrir unga atvinnuleitendur á aldrinum 16-25 sem er án bótaréttar eða er um það bil að klára bótarétt. Atvinnutorginu er ætlað að koma til móts við þann hóp atvinnuleitenda sem hefur hvað minnsta menntun og starfsreynslu og þarf meiri stuðning en ella. Á Atvinnutorgi munu þátttakendur fá einstaklingsmiðaða ráðgjöf og gerðar verða áætlanir með þarfir hans í huga.
Atvinnutorgið er staðsett í Hvammi, Suðurgötu 15 og verður opið frá kl. 8.00 – 16.00
Úrræði Atvinnutorgsins eru að bjóða upp á einstaklingsmiðaða ráðgjöf og fræðslu og skapar tækifæri fyrir ungt fólk til að öðlast starfsreynslu á vinnumarkaði. Bjóða upp á starfsþjálfun á vinnustöðum. Starfsþjálfunin felur í sér að þátttakendum verði boðið upp á starfsþjálfun í einn til þrjá mánuði, tvo til fimm daga vikunnar. Starfshlutfall og verkefni fara eftir aðstæðum hverju sinni og samkomulagi við þátttakanda. Bjóða upp á tímabundna ráðningu til sex mánaða í 50% - 100% starfshlutfalli. Eingöngu er um tímabundnar stöður að ræða þar sem þátttakendur öðlast starfsreynslu sem ætti að geta stutt við frekari atvinnuþátttöku. Starfshlutfall og verkefni fara eftir aðstæðum hverju sinni og samkomulagi við þátttakanda
Fyrirtæki og stofnanir sem taka þátt í verkefninu skuldbinda sig til að veita þátttakendum hagnýta reynslu og innsýn á þeim starfsvettvangi sem um ræðir. Vinnustaðurinn kemur sér upp tengilið fyrir umrædda einstaklinga sem sinnir jafnframt samskiptum við starfsmann í Atvinnutorginu.
Hlutverk starfsmanna Atvinnutorgsins er að hvetja unga atvinnuleitendur til virkni. Að mæta þörfum þátttakanda þar sem hann er staddur og leita viðeigandi úrræða fyrir þátttakendur. Að vinna einstaklingsáætlanir með þátttakendum sem samþættar ráðgjöf, fræðslu, starfsþjálfun og/eða starfi og vera stuðningur bæði fyrir viðkomandi einstakling og starfsstað. Að veita stuðning í atvinnuleit og að fylgja málum hvers og eins þátttakenda eftir.
Starfsmenn Atvinnutorgsins vinna í nánu samstarfi við starfsmenn fjölskyldu-og félagsþjónustu Reykjanesbæjar og atvinnuráðgjafa Vinnumálastofnunar, samstarfsstofnanir og fyrirtæki.
Umsjón með Atvinnutorginu í Reykjanesbæ hefur stýrihópur sem í sitja 2 fulltrúar Reykjanesbæjar ásamt forstöðumanni Vinnumálastofnunar Suðurnesja.
Myndir frá opnun atvinnutorgs í Reykjanesbæ fyrir helgi. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson