Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Atvinnuþróunarfélag stofnað og 200 milljónir í hersetusafn á Ásbrú
Þriðjudagur 3. maí 2011 kl. 18:06

Atvinnuþróunarfélag stofnað og 200 milljónir í hersetusafn á Ásbrú


Ákveðið var á fundi Ríkisstjórnarinnar 9. nóvember 2010 að hrinda af stað 11 verkefnum á Suðurnesjum til að efla atvinnu, menntun og velferð. Til þess að halda utan um þau og vinna í sameiningu í landshlutanum ákvað ríkisstjórnin að mynda samráðsvettvang stjórnvalda og sveitarfélaga á svæðinu. Verkefnin urðu fljótlega 10 þar sem tvö voru sameinuð, þ.e. verkefni um fisktækniskólann og þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði. Vettvangurinn hefur fundað fjórum sinnum og lokafundur hans var haldinn sl. föstudag, segir á vef stjórnarráðs Íslands.

Vettvanginn hafa setið fulltrúar þeirra ráðuneyta sem bera ábyrgð á verkefnunum, sveitarstjórar, fulltrúar stofnana, verkalýðsfélaga, vinnuveitenda og annarra lykilaðila í landshlutanum. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, SSS, héldu utan um samráðsvettvanginn og voru þannig helsti samstarfsaðili stjórnsýslunnar í héraði. Vegna þeirrar góðu reynslu sem þetta samstarf hefur gefið af sér mun ábyrgð á framkvæmd verkefnanna nú færast til SSS auk þess sem stefnt er að því að þeir þrír verkefnisstjórar sem ráðnir hafa verið á vegum mennta- og menningarmála- og velferðarráðuneytis til þess að sinna ákveðnum verkefnum verði staðsettir hjá þeim. Þannig mun nást aukin samlegð auk þess sem ábyrgð er markvisst flutt úr ráðuneytunum í hérað og tengingin við stjórnsýsluna næst í gegnum einn styrkan aðila.
 
Samráðsvettvangurinn vann í sameiningu að framgangi verkefnanna 10, auk þess sem önnur verkefni sem snéru að samskiptum ríkis og sveitarfélaga voru rædd. Ávinningur af samstarfinu, fyrir utan verkefnin 10, er að Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum hafa styrkst sem vettvangur sem stjórnvöld og stjórnsýslan vinna með. Jafnframt hefur vinnan í kringum verkefnin og vettvanginn sýnt fram á mikilvægi þess að ráðuneytin vinni saman og eigi samskipti við landshlutafélög sveitarfélaga sem ein heild.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á lokafundi vettvangsins skrifuðu SSS og Byggðastofnun f.h. stjórnvalda undir samning um stofnun atvinnuþróunarfélags en slíkt félag hefur ekki áður verið starfandi á þessum vettvangi og verða veittar til þess 10 milljónir króna úr ríkissjóði.   Þá var tilkynnt um 200 milljóna króna aukafjárframlag ríkisstjórnarinnar til Kadeco sem hefur ákveðið að féð renni til stofnunar og reksturs Hersetusafns. Á fundinum var auk þess farið var yfir stöðu annarra verkefna. 

Verkefnin 10 eru:
1. Flutningur landhelgisgæslunnar  -  hagkvæmnismat liggur fyrir.
2. Gagnaver  -  lög um breytingar vegna gagnavera tóku gildi 1. maí  sl.   
3. Hersetusafn á Suðurnesjum  -  fjármögnun hefur verið tryggð.
4. Kynningar- og markaðsátak á fasteignum á varnarsvæðinu  -  er í ferli.
5. Starfshópur um atvinnumál á Suðurnesjum  -  lokaskýrsla liggur fyrir.
6. Klasasamstaf fyrirtækja á sviði líforku  -   er í ferli.
7. Hámarkstímabil atvinnuleysisbóta  -  hefur verið hækkað.
8. Formlegt samstarf sveitarfélaga í velferðarmálum  -  verkefnisstjóri ráðin og samstarf komið á.
9. Útibú umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum  -  Útibú hefur verið opnað.
10. Fisktækniskólin/þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði. Þróunarverkefni  um eflingu menntunar á Suðurnesjum. Verkefnisstjórar hafa verið ráðnir og verkefni er hafið.

Samráðsvettvangurinn var tilraun til þess að vinna landshlutabundinn verkefni í nánara samstarfi við aðila í héraði; tilraun til að færa hluta af áhrifum framkvæmdavaldsins nær fólkinu. Vinnulagið mun vonandi hafa breytingar í för með sér til framtíðar, í fyrsta lagi hvað viðvíkur samvinnu innan stjórnsýslunnar og í annan stað hvað varðar samvinnu milli ríkis, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka um verkefni . Auk þeirrar vinnu sem þegar hefur verið unnin eða hrint var af stað á samráðsvettvangi Suðurnesja er jafnframt hafin vinna í öllum landshlutum að sóknaráætlunum landshluta sem hluti af stefnumarkandi skjalinu, Ísland 2020. 


Myndin: Skrifað undir samning um stofnun atvinnuþróunarfélags.
Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar og Gunnar Þórarinsson formaður stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.