Atvinnurekendur gefi frí til fundarsetu
SAR eða Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi hafa boðað til opins borgarafundar í Stapanum á fimmtudaginn kl. 16:30 um atvinnumál á Suðurnesjum. Vegna tímasetningarinnar hafa atvinnurekendur á svæðinu verið hvattir til að gefa starfsfólki sínu frí til þess að það geti setið fundinn.
„Við heyrum ekki annað en góð viðbrögð. Öllum 63 þingmönnum Alþingis hefur verið sent boðskort sem einnig verður sent á alla fjölmiðla. Við höfum fengið góðar undirtektir frá atvinnurekendum að þeir gefi frí fyrir hálf fimm á fimmtudag svo allir geti mætt,“ segir Guðmundur Pétursson, einn þeirra sem hefur annast hefur undirbúning fyrir fundinn. Hann segist eiga von að húsfylli.
Þema borgarafundarins er „Ákall um samstöðu“ allra aðila, stjórnvalda, sveitarfélaga, verkalýðsfélagana og atvinnurekenda á Reykjanesi. Framsöguræður munu flytja fulltrúar þeirra verkefna sem verið hafa í umræðunni og munu þeir greina frá stöðu mála frá sinni hlið. Á fundinum verður ekki umræða eða skoðanaskipti heldur er honum fyrst og fremst ætlað að vera upplýsandi um stöðu mála og efla samstöðu.
„Frummælendur eru beðnir um að skýra stöðu mála frá sinni hlið en ekki koma með kynningu. Við munum taka við fyrirspurnum frá borgurum úr sal sem bætt verður í safnið og síðan mun SAR vinna úr þeim punktum. Skilaboð okkar eru mjög einföld: Við viljum ekki kenna öðrum um. Þetta ástand er óviðunandi og núna þurfa menn að fara vinna verkin sín. Og við í SAR erum tilbúin að koma að því verkefni. Það vantar fleiri ræðara í bátinn,“ sagði Guðmundur.