Atvinnulífið í Grindavík fer rólega af stað
Jarðskjálfti að stærð 4,5 í morgun
Ekki verður sagt að mikill kraftur hafi verið í atvinnulífinu í Grindavík í morgun en bæði fer fiskvinnsla að venju rólega af stað eftir áramót því bátarnir eru nýfarnir á sjó, og aðrar atvinnugreinar eru ekki komnar í full afköst eftir hamfarnirnar í nóvember. Vinna við varnargarða fyrir utan Grindavík er hafin og jarðskjálfti að stærð 4,5 reið yfir í morgun og er margt líkt með hegðun jarðarinnar núna eins og um daginn þegar eldgos kom við Sundhnúka.
Ólafur Már Guðmundson er verkstjóri á smíðaverkstæði Grindarinnar. „Ætli við séum ekki að starfa á u.þ.b. 50% afköstum í dag. Það eru nokkrir starfsmenn ennþá erlendis í fríi svo við hefðum hvort sem er ekki verið komnir á fullt. Við hófum starfsemi um leið og það var leyft en þetta var frekar erfitt til að byrja með fyrst við gátum ekki farið um Grindavíkurveginn. Einn daginn þurfti ég að fara fjórar ferðir Nesveginn og eina ferð á Suðurstrandarveginum, þetta tafði auðvitað. Við byrjum klukkan sjö á morgnana en þeir sem búa lengra frá byrja seinna en eru þá líka eitthvað lengur á daginn. Það verður mjög gott þegar lífið kemst aftur í eðlilegar skorður,“ sagði Óli Már.
Vélsmiðja Grindavíkur var með þeim fyrstu sem opnuðu og voru félagarnir Bjarki Simarsson og Sigurbjörn Elvarsson að sjálfsögðu mættir snemma í morgun og buðu upp á rjúkandi kaffi. Kjartan Viðarsson, útgerðarstjóri hjá Vísi var mættur til að sækja nauðsynjar og sagði að engin vinnsla væri komin af stað. „Bátarnir fóru nú bara á sjóinn í gær svo það hefði hvort sem er engin vinnsla verið komin í gang. Þetta er búið að vera flókið, þetta er erfitt á meðan fólkið býr ekki á staðnum. Það er erfitt að fá útlendingana til að flytja til Grindavíkur á meðan lögreglustjórinn mælist gegn því að flutt sé til Grindavíkur. Ég var með þeim fyrstu sem flutti heim fyrir jólin, ég sé ekkert því til fyrirstöðu að flytja aftur heim. Það hefur aldrei verið eldgos undir Grindavík og ég hef engar áhyggjur af því. Eflaust kemur eldgos en þá að öllum líkindum á svipuðum slóðum og um daginn og nú er bygging varnargarða hafin svo það er bara bjart framundan hjá okkur Grindvíkingum. Ég tel mjög mikilvægt að Grindvíkingar flytji heim sem fyrst, þeim mun lengur sem fólk býr annars staðar, þeim mun meiri líkur eru á því að þau skjóti rótum þar, það viljum við ekki að gerist,“ sagði Kjartan.
Að lokum var komið við í Stakkavík og var reynt að ná tali af Hermanni Ólafssyni, framkvæmdastjóra en hann mátti ekkert vera að því að tala við blaðamann og sat sem fastastur inn í lyftaranum og mokaði upp steypu sem hefur verið brotin að undanförnu en miklar skemmdir urðu á húsnæði Stakkavíkur í jarðhræringunum.