Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Atvinnuleysi næstmest á Suðurnesjum
Föstudagur 20. september 2002 kl. 14:55

Atvinnuleysi næstmest á Suðurnesjum

Atvinnuleysi á Suðurnesjum í ágústmánuði mældist 2 prósent, ef miðað er við landið í heild samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun, en í ágústmánuði voru 106 karlar skráðar atvinnulausar og 156 konur. Til samanburðar var hlutfall atvinnulausra á Suðurnesjum í ágúst í fyrra 0,4% og á árinu 2000 var atvinnuleysið miðað við landið 0,2% en þá voru 8 karlmenn skráðir atvinnulausir og 25 konur. Um verulega aukningu er því að ræða þegar litið er á atvinnuleysistölur af Suðurnesjum frá árinu 2000. Atvinnuleysi á Suðurnesjum mælist nú næstmest á landinu, en mest atvinnuleysi er á höfuðborgarsvæðinu. Ketill Jósefsson, forstöðumaður Svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja segir að veruleg aukning hafi orðið á skráningu atvinnulausra síðustu 4 mánuði.Ketill segir að það hafi komið sér verulega á óvart hvað lítið fækkaði á atvinnuleysisskránni í vor miðað við það sem hann átti von á: „Atvinnuleysið hér á Suðurnesjum er yfirleitt árstíðarbundið og mælist oft mest á haustin og fer vaxandi fram á veturinn, en minnkar þegar vertíðin byrjar og er yfirleitt orðið lítið í maí. Í vor snerist þetta því sem næst við, því veruleg fjölgun varð og mjög lítil fækkun á atvinnuleysisskránni.“ Ketill segir meginástæðuna fyrir þessu vera þá að stór verk á vegum verktaka drógust saman, t.d. á Keflavíkurflugvelli og mikið hafi verið um að sjómenn hafi skráð sig, auk samdráttar hjá Flugleiðum: „Við vorum hrædd um að skólafólk fengi ekki vinnu í sumar, en sem betur fer fengu nær allir vinnu og spilaði Vinnuskóli Reykjanesbæjar þar stórt hlutverk. En við erum að sjá mikla aukningu sjómanna á skránni og það er auðvitað mikið áhyggjuefni, en konur og ófaglærðir eru enn í meirihluta á skránni.“ Þegar einstaklingur skráir sig á atvinnuleysisskrá þarf hann að sýna fram á vottorð frá vinnuveitenda að hann hafi unnið þar í 12 mánuði til að sækja um fullar bætur. Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta á Suðurnesjum fer yfir umsóknina og ef hún er samþykkt þarf viðkomandi að koma á skrifstofu Vinnumiðlunar og skrá sig tvisvar í mánuði: „Við leggjum mikla áherslu á að finna starf fyrir þann sem skráir sig á atvinnuleysisbætur og langflestir atvinnurekendur eru í góðu sambandi við okkur. Við fylgjumst vel með atvinnuauglýsingum og kynnum störf og nám fyrir þeim sem eru á skránni hjá okkur og bjóðum upp á ýmis úrræði í formi námskeiða þar sem við greiðum hluta af námskeiðsgjöldum eða að fullu.“ Ketill segir að það sé gerður sérstakur samningur við alla þá sem skrá sig og gengur sá samningur út á það að viðkomandi þarf að leita sér að vinnu og sýna fram á það með óyggjandi hætti: „Þegar fólk kemur og stimplar sig inn hjá okkur á tveggja vikna fresti, þarf viðkomandi að sýna okkur hvað hann hefur verið að gera í sínum málum, þ.e. hvar hann hefur verið að sækja um vinnu. Þannig náum við að sinna hverjum einstaklingi mun betur og fylgja honum mun betur eftir en við annars gerðum.“ Fyrir stuttu sendi Ketill bréf til Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum og til allra sveita- og bæjarstjórna á Suðurnesjum þar sem lýst var áhyggjum Svæðisráðs Svæðisvinnumiðlunar á Suðurnesjum af þróun mála: „Þegar illa árar þá skoða menn það sem betur má fara og koma fram með einhverjar lausnir. Ef það er t.d. hagkvæmara að flytja landvinnslu út á sjó þar sem notuð er olía, hvað er þá að hjá þjóð sem framleiðir rafmagn í miklu mæli? Er ekki möguleiki á að selja þá orku á lægra verði, þá á ég við til fyrirtækja.“ Ketill er bjartsýnn á að atvinnuleysistölur fari að lækka á nýjan leik, en í augnablikinu sé ástandið ekki gott: „Ef að allar þær fréttir af lokun fyrirtækja og uppsögnum ganga eftir, þá getum við búist við því að fyrir áramót bætist 70-80 manns á atvinnuleysisskrána. Ýmsar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á næstunni , t.d. breikkun Reykjanesbrautar, vegur fyrir Ósabotna, stálpípuverksmiðjan í Helguvík, Saltverksmiðja á Reykjanesi,“ segir Ketill að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024