Atvinnuleysi minnkar hratt
Þetta er allt að snúast í rétta átt. Við erum hætt að skrapa botninn,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis. Fjöldi atvinnulausra á Suðurnesjum hefur fækkað mikið á einu ári og talan hefur hefur lækkað verulega á síðustu vikum og mánuðum.
Kristján segir margt að gerast á svæðinu og margt í pípunum. Þegar atvinnuleysi mældist mest hjá verkalýðsfélaginu var um fjórðungur félagsmanna í VSFK atvinnulaus en nú er sú tala helmingi minni eða 13%.
Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru 993 einstaklingar án atvinnu í lok janúar síðastliðinn. Í desember 2012 voru þeir 76 fleiri sem voru án atvinnu eða alls 1069 en í janúar 2012 voru þeir hins vegar 1309. Á einu ári hefur tala atvinnulausra því lækkað um 316 eða um fjórðung. Nú í febrúar lækkaði talan enn meira, um alla vega nokkra tugi. Nákvæmar tölur um það liggja þó ekki fyrir.
Linda Ásgrímsdóttir hjá Vinnumálastofnun segir að margir sem hafi dottið út af bótum um áramót hafi fengið störf í gegnum Liðsstyrk sem er átaksverkefni stofnunarinnar.
Í prósentum talið er atvinnuleysið þó enn mest á Suðurnesjum eða 9,5% en það fór mest í 14,5 árið 2010 og 14,3% 2011 en hefur farið lækkandi síðan. Næstmest er það á höfuðborgarsvæðinu eða 5,8% og á flestum stöðum landsins er atvinnuleysi um helmingi minna en á Suðurnesjum.
Af fjölda atvinnulausra á Suðurnesjum voru flestir atvinnulausir í Reykjanesbæ eða um 80% hópsins. Fæstir hlutfallslega eru án atvinnu í Grindavík eða 67 manns í janúar.
Ýmis vinnumarkaðsverkefni sem boðið hefur verið upp á hafa hjálpað til en megnið er þó ný störf hjá fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu. Kristján sagði það þó áhyggjuefni að í hópi atvinnulausra væru 100 manns í verslun og þjónustu. Ljóst væri að verslunargreinin væri í erfiðleikum en á heildina litið væri ástandið á réttri leið.
„Hljóðið í fólki er allt annað. Við erum að sjá marga sem höfðu verið atvinnulausir í langan tíma vera farna að brosa á nýjan leik og komna út á vinnumarkaðinn á nýjan leik. Það skiptir gríðarmiklu máli.“