Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Atvinnuástandið: Þungur vetur framundan
Þriðjudagur 9. september 2008 kl. 17:24

Atvinnuástandið: Þungur vetur framundan



Alls eru 343 einstaklingar skráðir atvinnulausir á Suðurnesjum, 144 karlar og 199 konur.


Til samanburðar voru í lok september 2007 alls 223 skráðir atvinnulausir, 78 karlar og 145 konur. Staðan fer versnandi, segir forstöðumaður Vinnumálastofnunar Suðurnesja.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


„Það er mesta furða hvernig staðan er ennþá en hún fer versnandi, það er engin spurning. Þetta hefur gerst hægar inn við áttum von á hér. Hins vegar kemur hópur inn í október og þá má alveg reikna með að 100 manns bætist við þessar tölur.  Þetta er líklega síðasti mánuðurinn sem við höfum tölunar svona þokkalegar.,“ segir Ketill G. Jósefsson, forstöðumaður Vinnumálastofnunar Suðurnesja í samtali við VF. Að sögn Ketils er aðallega um að ræða hóp starfsmanna sem sagt var upp hjá IGS í vor en flestir höfðu 3ja mánaða uppsagnarfrest.



„Miðað við svartsýnistóninn í blöðum og annað þá hefur ekki verið eins mikið um hópuppsagnir hér eins og á öðrum svæðum. Að vísu hafa einhverjir verktakar verið að leggja upp laupana en þeir voru flestir með undir 20 manns.  Þeirra á meðal erlenda starfsmenn sem virðast margir hafi farið aftur út. Þannig að þetta var ekki eins alvarlegt og útlit var fyrir um tíma,“ segir Ketill.



-Hvernig líst þér á veturinn?



„Ég er hræddur um að hann verði þungur. Venjulega er daufara yfir þessu frá október fram í febrúar, ekki bara hér á Suðurnesjum heldur á landinu öllu. Ef veturinn verður eins og í fyrra verður ekki mikið um að vera , allavega utandyra. Það er alltaf samdráttur hjá verktökum á þessum tíma. Maður heyrir að nokkur fyrirtæki hangi á bláþræði þannig að ef ástandið fer ekki að lagast á þessu ári má búast meiri þrengingum eftir áramót,“ segir Ketill. 


„Við erum með mesta atvinnuleysið á landinu en þetta eru svo sem ekki háar prósentutölur miðað við ýmislegt annað.  Hér þykir þetta samt alveg nóg þó svo að staðan hafi vissulega verið verri, t.d. þegar Varnarliðið byrjaði að segja upp eða þegar atvinnuleysi upp á 400 – 500 manns var viðvarandi á fyrri hluta síðasta áratugar. Vonandi sjáum við það ekki aftur,“ segir Ketill.


Mynd/elg: Samdráttur í byggingariðnaði hefur komið hart niður á sumum fyrirtækjum. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar beint.