Atvinnuástand helst nokkuð stöðugt þrátt fyrir brotthvarf Varnarliðsins
Atvinnuástand hefur verið nokkuð stöðugt yfir sumarmánuðina, þrátt fyrir að einn stærsti vinnustaðurinn á Suðurnesjum, varnarstöðin á Keflavíkurflugvelli, hafi sagt upp öllu sínu starfsfólki. Þar eru nú 120 manns sem eiga aðeins örfáa daga eftir af uppsagnarfrestinum. Staða þessa fólks er að hluta til í nokkurri óvissu, sérstaklega eldri starfsmannanna.
Nú í byrjun vikunnar voru 204 einstaklingar skráðir atvinnulausir á Suðurnesjum, 142 konur og 62 karlar. Meðalfjöldi atvinnulausra í júlí var 1,9% eða 176 einstaklingar. Atvinnuleysið mældist mest í janúar þegar 222 einstaklingar voru skráðir atvinnulausir.
„Sumarið er yfirleitt besti tíminn á vinnumarkaði en svo kemur alltaf þetta árstíðabundna atvinnuleysi seint á haustin. Burtséð frá þessum árstíðabundnu sveiflum má segja að atvinnuástand hafi verið nokkuð stöðugt síðustu tvö árin,“ sagði Ketill G. Jósefsson, forstöðumaður Svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja, í samtali við VF.
Ketill segir yfirleitt dauflegra um að litast á atvinnumarkaði á þessum tíma árs og þess vegna sé einhverju leyti erfiðara um vik að finna ný störf. Sumt af því fólki sem nú er að klára uppsagnarfrestinn hafi ekki að neinu að hverfa.
„Reykjanesbær hefur komið vel inn í þetta mál ásamt stéttarfélögunum og reynt hefur verið að finna störf hjá bænum, þó ekki sé nema tímabundið til að brúa bilið á meðan fólk er að svipast um eftir öðru. Þá er verið að tala um 3-6 mánaða ráðningasamninga í ýmsum tilfallandi störfum sem oft vantar mannafla til að sinna,“ segir Ketill.
Aðspurður um stöðu starfsmanna VL segir Ketill mesta áhyggjuefnið hversu stór hluti þeirra séu eldri starfsmenn með fulla starfsorku og reynt verði að greiða úr málum þeirra eftir því sem tök eru á. Þó svo framboð á störfum sé nægjanlegt í sumum atvinnugreinum er ekki allt sem hentar þessum aldurshópi. Helstu úrræði sem munu standa atvinnuleitendum til boða nú á haustdögum eru í formi námskeiða.
„Ég get nú ekki sagt annað en að ég sé bjartsýnn en mér finnst að stjórnvöld mættu sýna þessu svæði aðeins meiri áhuga. Mér finnst óskaplega lítið hafa komið frá þeim, þó svo að við heimamenn sem stöndum sjálfir í framlínunni höfum verið að velta ýmsum hugmyndum upp á borðið. Hins vegar hefur ýmislegt verið tekið til baka af þeim fyrirheitum sem voru gefin í vor, t.d. varðandi flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja.
Mér finnst stærstu fjölmiðlar hingað til ekki hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga. Það væri t.d. ekki úr vegi að taka viðtöl við það fólk sem vann á varnarsvæðinu og leyfa okkur hinum að heyra þeirra sjónarmið en í staðinn er verið að fjalla um dauða hluti eða kakkalakka,“ segir Ketill.
Mynd: Völlurinn er orðinn að draugabæ. Ljósmyndari VF rakst þó á þessa tvo starfsmenn slökkviliðsins við störf en við slökkvistöðina var nánast eina lífsmarkið sem sjá mátti í varnarstöðinni.
VF-mynd:elg