Áttræður vitavörður hleypur upp hæsta vita landsins annan hvern dag!
Guðni Ingimundarson er vitavörður á Garðskaga. Guðni verður áttræður síðar á árinu. Það er ekki að sjá á Guðna að hann láti aldurinn aftra sér frá því að sinna starfi vitavarðar en á verkefnalista Guðna er að fara upp að ljóskeri Garðskagavita annan hvern dag. Það er ekki auðvelt verk því upp að ljósinu eru 120 brattar tröppur inni í Garðskagavita. Vitinn er um 27 metra hár. Blaðamaður Víkurfrétta slóst í för með Guðna í dag.Guðni hreinlega hljóp upp tröppurnar 120 og blés ekki úr nös á meðan okkar maður rétt hafði síðustu tröppurnar og varð að þurrka svitaperlurnar af enninu áður en hann gat hafist handa við að mynda vitavörðinn að störfum. Í samtali við Víkurfréttir sagðist Guðni þurfa að fylgjast með reim í snúningsverki ljóssins í Garðskagavita og einnig væri fylgst með ástandi perunnar í ljósinu. Annað slagið þarf einnig að þrífa seltu af rúðum ljóshússins til að tryggja að ljósið sjáist sem best. Þó svo Guðni eigi að fara upp að ljósinu annan hvern dag samkvæmt pappírunum segir hann að stundum líði 3-4 dagar á milli. Það komi ekki að sök, enda hafi hann endingu reimarinnar á hreinu og peran í Garðskagavita endist í allt að eitt og hálft ár. Þegar hún springi skipti hún sjálfkrafa yfir á varaperu.
Guðni hefur einnig eftirlit með Hólmsbergsvita, við Helguvík. Þangað upp eru ekki eins margar tröppur og eðli ljóssins er einnig öðruvísi. Þar endist perurnar í 3-4 ár.
Eftir að hafa skokkað upp Garðskagavita á eftir Guðna í dag er blaðamanni ljóst að vitavörðurinn á Garðskaga er hreystimenni mikið en það er á ábyrgð Guðna að þessi útvörður Íslands, Garðskagaviti, lýsi sjófarendum rétta leið inn á Faxaflóa. Siglingaleiðin fyrir Garðskaga er varasöm í vondum veðrum og þó svo siglingatæki séu mun fullkomnari í dag en árið 1944, þegar Garðskagaviti var byggður, þá treysta menn enn mjög mikið á ljósið í vitanum.
Texti og myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Guðni hefur einnig eftirlit með Hólmsbergsvita, við Helguvík. Þangað upp eru ekki eins margar tröppur og eðli ljóssins er einnig öðruvísi. Þar endist perurnar í 3-4 ár.
Eftir að hafa skokkað upp Garðskagavita á eftir Guðna í dag er blaðamanni ljóst að vitavörðurinn á Garðskaga er hreystimenni mikið en það er á ábyrgð Guðna að þessi útvörður Íslands, Garðskagaviti, lýsi sjófarendum rétta leið inn á Faxaflóa. Siglingaleiðin fyrir Garðskaga er varasöm í vondum veðrum og þó svo siglingatæki séu mun fullkomnari í dag en árið 1944, þegar Garðskagaviti var byggður, þá treysta menn enn mjög mikið á ljósið í vitanum.
Texti og myndir: Hilmar Bragi Bárðarson