Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Áttatíu sprengjur hafa fundist við Háabjalla síðustu 12 mánuði
Mánudagur 5. apríl 2004 kl. 16:29

Áttatíu sprengjur hafa fundist við Háabjalla síðustu 12 mánuði

Um 80 sprengjur hafa fundist á Háabjallasvæðinu síðustu 12 mánuði. Rúmlega 600 sprengjur hafa fundist á svæðinu frá því farið var að leita skipulega á svæðinu sem er um 15 ferkílómetrar að stærð. Sett voru upp viðvörunarskilti á svæðinu í dag.

Starfsmenn Sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar hafa farið reglulega um svæðið kringum Háabjalla í leit að sprengjum en Sigurður Ásgrímsson hjá sprengjudeildinni segir að það sé gert af vilja frekar en getu. „Það er ekki gert ráð fyrir því í okkar fjárheimildum að við séum að leita að sprengjum eins og við gerum hér.“

Aðspurður um hvort hægt væri að slá á hve margar sprengjur væru á svæðinu sagði Sigurður ómögulegt að segja til um það. Ekki er vitað hve mörgum sprengjum hafi verið dreift yfir svæðið á sínum tíma. Sigurður segir að hægt væri að reikna út hve margar sprengjur væru ósprungnar ef vitað væri hve mörgum sprengjum hefði verið dreift um svæðið. Miðað við að rúmlega 600 sprengjur hafi fundist á svæðinu sé þó hægt að draga þá ályktun að tugir þúsunda sprengja hafi verið sprengd á svæðinu á sínum tíma og að hluti af þeim hafi ekki sprungið. Sprengjurnar sem starfsmenn Sprengjudeildarinnar hafa fundið á svæðinu eru yfirleitt sprengdar á staðnum.

Ótal tegundir sprengja er að finna á svæðinu og segir Sigurður að það sé vitað mál að sprengiefni verði hættulegra með aldrinum. „Það er ómögulegt að segja af hverju þessar sprengjur hafi ekki sprungið. Það getur hafa verið galli í þeim eða að þær hafi lent á mosa og ekki sprungið við það.“

Búið er að setja upp skilti meðfram Grindavíkurveginum og við vegin að Háabjalla og eru skiltin sett upp í þeim tilgangi að vara fólk við að taka upp hluti sem það kann að finna á svæðinu. „Það er ekki verið að fæla fólkið frá svæðinu, heldur er einungis verið að biðja fólk um að hafa varann á sér þegar það fer um svæðið og láta vita ef það finnur hlut sem gæti verið sprengja. Það er mjög mikilvægt að fólk hreyfi ekki við torkennilegum hlutum sem það finnur á svæðinu, heldur tilkynni það til lögreglu eða Landhelgisgæslunnar,“ sagði Sigurður í samtali við Víkurfréttir.

Myndin: Starfsmenn Sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar með eitt skiltanna sem sett voru upp að Háabjalla í dag. F.v. Jónas Þorvaldsson, Sigurður Ásgrímsson og Adrian King. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024