Áttatíu og sjö nemendur úrskrifaðir frá FS
Áttatíu og sjö nemendur voru brautskráðir frá Fjölbrautakóla Suðurnesja í dag. Hátíðleg og fjölmenn athöfn fór fram á sal skólans. Rúmlega þúsund nemendur stunduðu nám við skólann í vetur og útlit er fyrir aðra eins aðsókn á næstu haustönn og útlit fyrir að ekki komist allir að sem áhuga hafa á að fara í nám.
Að þessu sinni útskrifuðust 87 nemendur; 57 stúdentar, 11 úr verknámi, 7 sjúkraliðar, 9 brautskráðust af starfsbraut, einn lauk meistaranámi og einn starfsnámi. Auk þess lauk einn skiptinemi námi sínu í skólanum. Nokkrir nemendur brautskráðust af tveimur námsbrautum. Konur voru 45 og karlar 42. Alls komu 50 úr Reykjanesbæ, 17 úr Grindavík, 7 úr Sandgerði og 5 komu úr Garði og úr Vogum. Einn kom frá Egilsstöðum, Kirkjubæjarklaustri og Vopnafirði.
Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Sigfús Jóhann Árnason nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Magnús Óskar Ingvarsson kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Tveir nýstúdentar, þær Elsa Dóra Hreinsdóttir og Helena Rós Þórólfsdóttir, sungu við athöfnina við undirleik nemenda Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Á starfsbraut fékk Ingi Freyr Jónsson verðlaun fyrir góðan námsárangur, Brynjar Freyr Þorgeirsson fyrir stuttmyndagerð og Jakob Gunnar Lárusson fyrir störf í þágu nemenda. Elsa Dóra Hreinsdóttir, Sigurður Jónsson, Hildur Björk Pálsdóttir og Sigfús Jóhann Árnason fengu fengu viðurkenningu fyrir störf sín í þágu nemenda skólans. Hildur Björk fékk einnig verðlaun fyrir árangur sinn í ensku og Sigfús Jóhann fyrir spænsku. Þær Íris Sverrisdóttir og Berglind Þrastardóttir fengu viðurkenningu fyrir árangur í fata- og textílgreinum, Ingimundur Guðjónsson og Rut Bergmann Róbertsdóttir fyrir bókfærslu, Aníta Friðriksdóttir fyrir góðan árangur í listgreinum og Helena Rós Þórólfsdóttir fyrir leiklist. Elín Guðmundsóttir fékk gjöf frá danska sendiráðinu fyrir árangur sinn í dönsku. Björgvin Grétarsson hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í grunnteikningu og fagteikningu í húsasmíði og Óttar Steinn Magnússon fyrir góðan árangur í faggreinum í húsasmíði. Ólöf Birna Toradóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í spænsku og fata- og textílgreinum. Hrafnhildur Ása Karlsdóttir fékk verðlaun fyrir árangur sinn í þýsku og sögu og gjöf frá danska sendiráðinu fyrir árangur sinn í dönsku. Sigurdís Reynisdóttir fékk viðurkenningar fyrir líffræði, spænsku og efnafræði. Hún fékk einnig verðlaun frá Íslenska stærðfræðafélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði. Elín Óla Klemensdóttir fékk einnig verðlaun frá Íslenska stærðfræðafélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði og gjöf frá danska sendiráðinu fyrir árangur sinn í dönsku. Elín Óla fékk síðan viðurkenningar frá skólanum fyrir árangur sinn í líffræði, spænsku og efnafræði. Birna Ásbjörnsdóttir fékk verðlaun frá Íslenska stærðfræðafélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði. Hún fékk verðlaun frá skólanum fyrir efnafræði, líffræði, spænsku, íslensku og eðlis- og jarðfræði. Birna fékk einnig viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda og verðlaun frá Efnafræðafélagi Íslands fyrir framúrskarandi árangur í efnafræði. Þá fékk skiptineminn Narat Suchartsunthorn gjöf til minningar um veru sína í skólanum og á Íslandi.
Að venju veitti Sparisjóðurinn í Keflavík nemendum skólans viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og afhenti Baldur Þórir Guðmundsson þær fyrir hönd Sparisjóðsins. Að þessu sinni hlaut Óttar Steinn Magnússon viðurkenningu fyrir góðan árangur í iðngreinum og Elín Óla Klemensdóttir fyrir árangur sinn í tungumálum. Birna Ásbjörnsdóttir fékk verðlaun fyrir stærðfræði og raungreinar og íslensku. Birna hlaut einnig viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og fékk að launum 100.000 kr. styrk frá Sparisjóðnum.
Ragnheiður Gunnarsdóttir kennari afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þau Arnór Sindri Sölvason, Daníel Freyr Elíasson, Eyþór Ingi Júlíusson og Sigurbjörg Magnúsdóttir fengu öll 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í ræðumennsku og góðan árangur í lífsleikni. Sigfús Jóhann Árnason fékk 75.000 kr. styrk fyrir góðan árangur í ræðumennsku og einnig fyrir öflugt uppbyggingar- og kynningarstarf á ræðumennsku í skólanum og í grunnskólum. Þá fékk nemendafélag skólans 100.000 kr. vegna vegna útgáfu skólablaðsins Vizkustykkis og söngkeppninnar Hljóðnemans.
Foreldrafélag var stofnað við skólann síðastliðið haust. Við útskriftina afhenti Stefanía Valgeirsdóttir, formaður foreldrafélagsins, nemendafélagi skólans að gjöf myndavél til að nota í starfi félagsins
Við lok athafnarinnar afhenti skólameistari Magnúsi Óskari Ingvarssyni gjöf frá skólanum. Magnús, sem jafnan er kallaður Mói, lætur nú af störfum eftir 34 ára starf við skólann en hann hefur starfað við skólann frá upphafi.
Að lokum sleit Kristján Ásmundsson skólameistari vorönn 2010.
Texti VF og frá FS.
Fjölmenni var við útskriftina í FS í dag. Sigfús Árnason, formaður Nemendafélags FS flutti ræðu fyrir hönd nemenda.
Magnús Ó. Ingvarsson, Mói, útskrifaðist með nemendum sínum. Hann hefur kennt við skólann frá upphafi og verið síðustu 54 ár í skóla.
Birna Ásbjörnsdóttir með foreldrum sínum, Ásbirni og Auði og systrum sínum.
VF-myndir/pket