Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Áttatíu milljónir til Fisktækniskólans í Grindavík
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 1. október 2020 kl. 07:00

Áttatíu milljónir til Fisktækniskólans í Grindavík

til þróunar og eflningar starfsmenntunar í fiskeldi!

Fisktækniskóli Íslands í Grindavík hlaut 80 milljón króna styrk til næstu fjögurra ára til þróunar og starfsmenntunar í fiskeldi en skólinn er aðili að fjölþjóðlegu evrópsku verkefni um starfstengt nám á sviði fiskeldi. „Þetta eru auðvitað afar ánægjulegar fréttir og gefur okkur tækifæri til að efla starfsmenntun í fiskeldi á framhaldsskólastigi til muna og mæta þörfum þessarar vaxandi greinar,“ segir Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistari.

Verkefnið er svokallað Cove’s-verkefni (Centres of Vocational Excellence) þar sem fræðsluaðilar á sviði starfsmenntunar, ásamt fyrirtækjum, mynda sérstaka þekkingarklasa á sínu sviði. Þátttakendur í klasanum verða síðan leiðandi um menntun og þjónustu á sínu sviði í Evrópu ásamt því að veita öðrum stofnunum, skólum og fyrirtækjum ráðgjöf. Verkefnið fékk alls fjórar milljónir evra (um 600 milljónir króna) í styrk og fær Fisktækniskólinn, sem eini íslenski framhaldsskólinn í verkefninu, um 80 milljónir í sinn hlut á næstu fjórum árum. Auk samstarfsaðila í Noregi eru þátttakendur í verkefninu fræðsluaðilar og fyrirtæki í Svíþjóð, Finnlandi og Skotlandi. Samstarfsaðilar verkefnisins á Íslandi auk Fisktækniskólans eru Háskólinn að Hólum, Arnarlax og Háskólinn á Akureyri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að sögn skólameistara hefur verkefnið átt sér nokkurn aðdraganda. Fisktækniskólinn hefur frá upphafi boðið upp á grunn- og framhaldsnám í fiskeldi og hefur átt mjög gott samstarf við fyrirtæki í land- og sjóeldi um menntun. Síðastliðin tvö ár hefur vöxtur í sjókvíaeldi hins vegar kallað á aukna þjónustu og skólinn verið aðalsamstarfsaðili  um menntun og þjálfun starfsmanna stærri  fyrirtækja í sjóeldi. Yfir tuttugu starfsmenn Arnarlax og Arctic Fish hófu grunnám í fiskeldi við skólann haustið 2019 og stefna á námslok nú um áramótin. Í haust hefst svo nám á norðanverðum Vestfjörðum í samstarfi við Fræslumiðstöð Vestfjarða og á Austfjörðum í samstarfi við Austurbrú.      

„Það má reyndar segja að við höfum verið búin að taka fyrstu skrefin í þessa áttina þar sem við höfum verið að vinna með þessum Norðmönnunum sem nú leiða þetta Cove’s-verkefni og Háskólanum á Hólum síðustu árin í tveimur öðrum verkefnum á sviði fiskeldis. Þetta verkefni núna gerir okkur ekki bara kleift að spýta duglega í hér heima, heldur samtímis að verða einn af leiðandi framhaldsskólum á sviði starfsmenntunar í fiskeldi í Evrópu, enda meginmarkmið styrkveitingarinnar,“ segir Ólafur Jón.

Umsjón með námi í fiskeldi við Fisktækniskólann er í höndum Klemenzar Sæmundssonar en aðrir kennarar hafa verið verkefnaráðnir, m.a. frá Hólum og Matís. „Nú er ljóst að deildin mun eflast til muna á næstu árum og mikilvægt að laða að fleira öflugt samstarfsfólk í þá uppbyggingu,“  sagði Ólafur Jón.

Klemenz (lengst til hægri) með nemendum í Fisktækniskólanum.