Átta Grindvíkingar fengu heiðursviðurkenningar
Sjálfboðaliðar heiðraðir með listaverki | „Við þurfum að undirbúa nýjar kynslóðir undir komandi verkefni þar sem sjálfboðastarf verður áfram mikilvægt“
Átta Grindvíkingum voru afhentar heiðursviðurkenningar í tilefni af 50 ára kaupstaðarafmæli Grindavíkurbæjar á hátíðarfundi bæjarstjórnar Grindavíkur þann 10. apríl síðastliðinn. Öll hafa þau skilað umfangsmiklu og mikilvægu framlagi til samfélagsins í Grindavík og verið öðrum til fyrirmyndar, eins og fram kom við athöfnina.
Þau sem hlutu viðurkenningarnar eru:
- Aðalgeir Georg Daði Johansen hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf í þágu menningarmála í Grindavík.
- Birna Bjarnadóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf í þágu mannúðar- og menningarmála í Grindavík.
- Björn Birgisson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf í þágu menningarmála í Grindavík.
- Guðfinna Bogadóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf í þágu mannúðar- og menningarmála í Grindavík.
- Gunnar Tómasson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf í þágu atvinnu-, félags- og menningarmála í Grindavík.
- Jónas Þórhallsson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf í þágu íþróttamála í Grindavík.
- Kristín Elísabet Pálsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf í þágu barna- og menningarmála í Grindavík.
- Stefanía Ólafsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf í þágu fræðslu- og uppeldismála í Grindavík.
Á vef Grindavíkurbæjar má finna nánari upplýsingar um þau sem hlutu heiðursviðurkenningu og störf þeirra í þágu samfélagsins í Grindavík.
Á hátíðarfundinum var einnig tilkynnt að bæjarstjórn hafi ákveðið að kaupa listaverk til áminningar um mikilvægt framlag sjálfboðaliða til uppbyggingar samfélagsins í Grindavík í fortíð, nútíð og framtíð. Listaverkið er þakklætisvottur til þeirra Grindvíkinga sem í gegnum tíðina hafa ráðstafað tíma sínum og orku í þágu heildarinnar en um leið hvatning til að halda áfram á sömu braut. Skal verkið sett upp utandyra og á áberandi stað í sveitarfélaginu.
Fram kom í máli Ásrúnar Kristinsdóttur, forseta bæjarstjórnar, að bæjarfélagið Grindavík væri ríkt af sjálfboðaliðum sem á hverjum degi verja tíma sínum í margvísleg verkefni af umhyggju og einstakri ósérhlífni. Ásrún sagði jafnframt:
„Við þurfum að hlúa vel að sjálfboðastarfinu svo það haldi áfram að vera eftirsóknarvert. Við þurfum að undirbúa nýjar kynslóðir undir komandi verkefni þar sem sjálfboðastarf verður áfram mikilvægt.“
Á fundinum kom fram að bæjarstjórn muni vinna málið áfram í samvinnu við félagasamtök í Grindavík.
Undir lok fundar voru sjálfboðaliðum færðar bestu þakkir fyrir sín störf og var klappað fyrir þeirra framlagi til samfélagsins.