Átök um óskabarnið
Varla hefur farið framhjá neinum sú mikla barátta sem ríkt hefur um Hitaveitu Suðurnesja hf. síðustu daga og hafa verið ótrúlegar sviptingar í málinu. Atburðarásin fór af stað á föstudag þegar tilkynnt var að Geysir Green Energy í Reykjanesbæ hefði keypt 28,5% hlut minni hluthafa, þ.e. Vestmannaeyja, Grindavíkur, Voga, Garðs, Árborgar, Kópavogs og Sandgerðis á genginu 7,1 á hlut.
Á laugardag birtust svo yfirlýsingar Gunnars Svavarssonar, forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, þar sem hann lýsti fyrirætlunum Hafnarfjarðar að nýta sér forkaupsrétt sinn í 15% hlut ríkisins sem Geysir Green (GGE) hafði gert tilboð í og ríkið tekið. Stefna þeirra var að sögn að ná ráðandi hluta í fyrirtækinu, eða yfir 1/3 af hlutafé.
Með því var ljóst að Reykjanesbær myndi einng nýta sinn forkaupsrétt.
Á sunnudag kom svo upp úr dúrnum að Orkuveita Reykjavíkur (OR) hafði undirritaðan samning frá Grindavík þar sem samþykkt var að selja OR hlut Grindvíkinga á genginu 7. Sá gekk í berhögg við samninginn sem Sigmar Eðvarðsson, formaður bæjarráðs, hafði undirritað við Geysi Green á föstudag og hefði skilað Grindvíkingum um 120 milljónum króna í viðbót.
Bæjaryfirvöld ákváðu að virða samninginn við OR, en ekki lá fyrir opinbert samþykki bæjarstjórnar fyrir GGE-viðskiptunum. Þetta mál er í miklum hnút nú og sér ekki fyrir endann á því. Á mánudag samþykktu Grindvíkingar og Hafnfirðingar að ganga inn í tilboðið um hlut ríkisins og í kjölfarið að selja OR hlut sinn.
Í kjölfarið á þessu var eins og yrðu til tvær blokkir um yfirráð í HS, annars vegar Reykjanesbær og GGE en á hinum pólnum eru Hafnarfjörður, Grindavík og OR. Grindvíkingar og Hafnfirðingar segjast með þessu vera að verja hagsmuni minni hluthafa, og gæta þess að eignarhlutur Hafnfirðinga verði ekki áhrifalaus eign gegn Reykjanesbæ og GGE. Önnur rök hafa heyrst en þau lúta að því að verðmæti HS muni aukast verulega ef álver rís í Helguvík en einnig er útlit með að viðskiptavinahópur HS muni stækka verulega með íbúafjölgun á Suðurnesjum og þeirri tekjuaukningu sem fylgir því.
Kl. 16 á þriðjudag rann út frestur til að skila inn forkaups-tilboðum í hlut ríkisins og fór eins og búist var við að Reykjanesbær, Hafnarfjörður og Grindavík gengu inn í tilboðið og þurfa því að punga út um 7,6 milljörðum króna til samans.
Erindi vegna kaupa GGE á hlutum minni eigendanna og kaupa OR á hlutum Hafnarfjarðar og Grindavíkur hefur ekki borist þegar þetta er skrifað, en frá því að það gerist er 60 daga frestur fyrir eigendur að ganga inn í kaupsamninga.
Þannig er nógur tími eftir til að bítast um bitana en Reykjanesbær er í algerri lykilstöðu. Ef hlutir munu skipta um eigendur, fær Reykjanesbær alltaf bróðurpartinn í krafti forkaupsréttar og getur, ef þeir ná 2/3 hlutum eða meira, breytt samþykktum og afnumið forkaupsrétt eigenda. Þannig geta þeir hleypt GGE inn í fyrirtækið eins og óskir meirihlutans stóðu til.
Sama hvernig fer er ljóst að seint mun gróa um heilt meðal deiluaðila. Ásakanir um baktjaldamakk, svik og ofríkishegðun hafa gengið á milli og er erfitt að sjá að það hafi ekki langvarandi neikvæð áhrif á samskipti sveitarfélaganna. Er það miður því margt gott hefur áunnist á þeim vettvangi á undanförnum árum, ekki síst vegna samtakamáttar sveitarfélaganna á Suðurnesjum.
Þegar um hægist eftir fjargviðrið er engu að síður ljóst að Reykjanesbær stendur með pálmann í höndunum, eina spurningin er hvar hann mun svo enda.
Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grindavík:
Óvissa skapaðist við sölu á hlut ríkisins
Grindvíkingar hafa ákveðið að nýta forkaupsrétt sinn að hlut ríkisins í HS en munu svo selja OR hlutinn sem og 8% af þeim hlut sem þeir áttu þegar. Í tilkynningu frá Grindvíkingum sem barst á mánudag sagði að með sölu á hlut ríkinsins hafi skapast „óvissa um hag minni hluthafa í fyrirtækinu og hætta á að þeir yrðu fyrir borð bornir.“ Var bæjarstjórn einhuga um að hag minni sveitarfélaganna hafi verið vel borgið með þessari ráðstöfun. Grindvíkingar munu halda eftir 0,51% í Hitaveitunni.
Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grindavík, sagði í samtali við Víkurfréttir að hún líti ekki svo á að þau hafi stillt sér upp í fylkingu með OR og Hafnfirðingum gegn Reykjanesbæ og Geysi um yfirráð í HS. „Alls ekki. Atburðarásin var afar hröð þessa daga og málið þróaðist bara svona. Ég býst ekki við breytingu á hinu góða samstarfi sem sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa átt og við berum vonandi gæfu til að lenda þessu máli vel svo það verði öllum í hag.“
Jóna Kristín sagði aðspurð að vissulega yrði það gríðarleg breyting fyrir bæinn að fá inn söluandvirðið enda væri margt á döfinni hjá bæ í örum vexti. „Það verður engu að síður að gæta vel að öllu og umfram allt sýna skynsemi í ráðstöfun fjármunanna.“
Eftir Þorgils Jónsson