Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Atkvæði af Suðurnesjum töfðu talningu
Miðvikudagur 14. maí 2003 kl. 14:27

Atkvæði af Suðurnesjum töfðu talningu

Mistök við talningu atkvæða í Reykjanesbæ og í öðrum byggðarlögum á Suðurnesjum varð til þess að niðurstöður talningar í Suðurkjördæmi drógust til klukkan hálf tíu á sunnudagsmorgun.
Að sögn Karls Gauta Hjaltasonar formanns yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis voru það einkum tveir þættir sem urðu þess valdandi að talningin dróst. Karl segir að kjörgögn hafi borist seint og sérstaklega af Suðurnesjum þar sem afstemmning dróst úr einni kjördeild. „Meðan verið var að stemma af þennan eina kassa þá biðu allir hinir kassarnir á meðan og það átti auðvitað að vera fyrirsjáanlegt. Sparnaður í flugi kom í veg fyrir að sá möguleiki var skoðaður. Það er engin spurning að Suðurnesjakassana á að senda með flugi og ef eitthvað er eftir þá er því ekið seinna. Við gátum náttúrulega ekki farið að telja atkvæðin fyrr en kjörkassarnir bárust til okkar sem var á milli tvö og þrjú um nóttina.“ Þegar kjörgögn af Suðurnesjum bárust var hafist handa við að telja, en þá komu upp vandamál. „Það gekk mjög illa að stemma af kjörgögn úr nokkrum stórum kjördeildum af Suðurnesjum og það seinkaði ferlinu mjög mikið því þú sendir kjörgögn ekki í talningu fyrr en það er búið að stemma þau af.“ Þá fimmfaldaðist fjöldi utankjörfundaratkvæðaseðla, en þau voru liðlega 500, en voru rúmlega 100 á árinu 1999 í gamla Suðurlandskjördæmi, Karl Gauti sagði að frágangur þeirra hefði tekið u.þ.b. 1-2 tíma að morgni sunnudags.
Karl Gauti vill að það komi skýrt fram að kjördæmið sé nýtt og það stærsta landfræðilega séð, auk þess sem það sé fjölmennast af landsbyggðarkjördæmunum. „Einhver þarf að vera síðastur með tölurnar og það lenti á okkur að þessu sinni. Það voru tölur að berast rétt á undan okkur. En ég sé ýmislegt sem þarf að laga hjá okkur og það verður án efa gert fyrir næstu kosningar.“
Ottó Jörgensen formaður kjörstjórnar í Reykjanesbæ vill ekki kannast við að mistök hafi verið gerð í talningu atkvæða. Ottó segir að afhending kjörgagna af Suðurnesjum hafi dregist vegna þess að eitt talningablað af þremur hafi ekki stemmt þar sem munað hafi einu atkvæði. Það sem tafði talninguna á Selfossi segir Ottó hinsvegar að hafi verið vegna mikils fjölda utankjörfundaratkvæða sem barst frá yfirkjörstjórn. „Það þarf að stemma öll þessi atkvæði af með því að fara yfir kjörskrár og kjörskrárnar geta borist á mismunandi tíma. Það tekur mikinn tíma að stemma þessi atkvæði af.”
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024