Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Athugasemdir gerðar við bensínbrúsa á afturstuðara
Mánudagur 25. júlí 2005 kl. 12:00

Athugasemdir gerðar við bensínbrúsa á afturstuðara

Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, reiknar með að athugasemdir verði gerðar við þá aðferð Varnarliðsmanns að geyma sjö bensínbrúsa á afturstuðara jeppabifreiðar sinnar. Vegfarandi á Suðurnesjum hafði samband við ljósmyndara og lögreglu vegna jeppabifreiðar sem sést á meðfylgjandi mynd aka inn um hlið varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Sjö bensínbrúsar eru festir við afturstuðara jeppans. Hver brúsi tekur allt að 25 lítra af bensíni þannig að í brúsunum gætu hafa verið allt að 175 lítrar við upphaf ferðar. Vegfarandinn benti m.a. á að hér væri á ferð "tifandi tímasprengja" í umferðinni lenti þessi bifreið í árekstri eða ef ekið væri aftan á bensínbirgðirnar.
"Það gilda engar reglur um þetta," sagði Jóhann í samtali við Morgunblaðið í dag en blaðið birti mynd sem ljósmyndari Víkurfrétta tók af jeppanum í aðalhliði Keflavíkurflugvallar í gærkvöld. Hann sagði hins vegar reglur gilda um eldsneytisflutninga varnarliðsmanna af Keflavíkurflugvelli út fyrir varnarsvæðið.

"Þeir mega taka með sér eldsneyti aukreitis þegar þeir fara í ferðalög, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Meðal annars þarf að ganga tryggilega frá eldsneytinu og ákveðin tilmæli eru um hvernig því er komið fyrir. Þeir þurfa einnig að sækja um leyfi í hvert skipti," sagði Jóhann. Hann sagði að bæði Umferðarráð og Lögreglan á Keflavíkurflugvelli hafi vakið athygli á því að framkvæmd þessara mála og varsla eldsneytisins ætti að vera með öruggum hætti, en ekkert í umferðarlögum bannaði að geyma eldsneyti á þennan hátt.

Jóhann sagðist hafa mætt umræddum jeppa í umferðinni í gærkvöldi og frágangur bensínbrúsanna hafi vakið athygli hans. "Það sem sést á þessari mynd er óhefðbundið og ég reikna með að við gerum athugasemdir við þetta tiltekna dæmi," sagði Jóhann.

Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024